þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flytja í nýtt húsnæði í Vigo á Spáni

Guðjón Guðmundsson
18. apríl 2020 kl. 13:00

Helgi Kristjánsson, markaðs- og sölustjóri Naust Marine. Mynd/HAG

Helgi Kristjánsson hættir hjá Naust Marine.

Skrifstofa og verksmiðja Naust Marine í Vigo á Spáni hafa verið flutt um set undir sama þak. Nýja húsnæðið hýsir bæði skrifstofur starfsmanna og framleiðslusal fyrirtækisins sem er yfir 1.500 fermetrar að stærð.

Helgi Kristjánsson, markaðs- og sölustjóri fyrirtækisins, segir að með þessu geti Naust Marine aukið afkastagetu sína til muna og mætt þannig aukinni eftirspurn viðskiptavina sinna.

Naust Marine í Vigo á Spáni er dótturfyrirtæki Naust Marine á Íslandi. Fyrrnefnda fyrirtækið framleiðir rafmagnsspil fyrir skip en framleiðsla á stjórnbúnaði spilanna fer fram í verksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði.

Góð verkefnastaða

Helgi segir verkefnastöðuna hafa verið góða. Fyrirtækið hafi meðal annars notið góðs af mikilli endurnýjun og uppbyggingu fiskiskipaflotans í Rússlandi. Fyrirtækið er partur af KNARR-samstæðunni sem hefur látið að sér kveða í Rússlandi í verkefnum af því tagi.

Helgi segir áhrifin af Covid-19 faraldrinum farin að hafa áhrif á dagleg störf og fámennt sé bæði á skrifstofu og í framleiðsludeild fyrirtækisins þessa dagana. Hins vegar hafi ekki orðið vart áhrifa á eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins.

Þannig hittist á þegar Fiskifréttir ræddu við Helga að hann var að taka til á skrifborði sínu og ljúka sínum starfsferli hjá Naust Marine. Þessi kunni togaraskipstjóri var einn af stofnendum og eigendum Naust Marine en hefur selt hlut sinn og hyggst einbeita sér að útgerð eigin báts. Þetta er Sómabáturinn Kristján SH sem Helgi ætlar að gera út frá Arnarstapa og hugsanlega Ólafsvík.

„Ég á dálítinn kvóta og hugsanlega fer ég líka á strandveiðar. Sjórinn togar alltaf í mann,“ segir Helgi sem verður einn á bátnum. Útlit er þó fyrir að Helgi verði fyrirtækinu áfram innan handar í verkefnum af ýmsu tagi.