föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frakkland: Sala á ferskum þorski eykst um 50%

26. október 2009 kl. 11:59

Það sem af er þessu ári hefur sala á ferskum þorski á Frakklandsmarkaði aukist úr 8.100 tonnum í 12.200 tonn eða um 51%. Þessi aukning er að hluta til því að þakka að ráðist var í auglýsingaherferð í febrúar og mars á þessu ári sem leiddi til þess að neytendur keyptu þorsk oftar en áður og nýir kaupendur bættust við.

Alls hefur um þriðjungur franskra heimila keypt ferskan þorsk til þess að hafa á borðum hjá sér á árinu, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum IntraFish. Þorskurinn er fyrst og fremst seldur sem flök en tiltölulega fáir kaupa fiskinn heilan.

Til samanburðar má nefna að 35% heimila í Frakklandi keyptu ferskan lax á þessu sama tímabili, alls 17.500 tonn. Þar til viðbótar keyptu franskir neytendur 6.300 tonn af frystum laxi.