sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiða rúmar 3 milljónir dósa á ári

5. júní 2018 kl. 16:00

Iðunn Seafoods veitir nærri 20 manns vinnu í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Iðunn Seafoods er tiltölulega nýtt fyrirtæki í Vestmannaeyjum sem sérhæfir sig í niðursuðu á reyktri þorsklifur. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu danska fyrirtækisins Amanda Seafoods. Aðrir eigendur eru útgerðir í Vestmannaeyjum. Rúmar 3 milljónir dósa eru framleiddar á ári og fara að stærstum hluta til Frakklands og Danmerku

gugu@fiskifrettir.is

Í Vestmannaeyjum var starfandi Lifrarsamlag Vestmannaeyja en starfsemi þess lagðist af þegar verksmiðjuhúsið brann árið 2009. Framleiðsluaðferðirnar voru aðrar og talsvert af lifrinni fór í lýsi.

Magnús Stefánsson er framleiðslustjóri hjá Iðunn Seafoods. Hann segir verksmiðjuna með nýjan, sérsmíðaðan tækjabúnað og aðstaðan til vinnslunnar er góð. Fimmtán manns starfa í verksmiðjunni, þar af þrír stjórnendur.

Árið 2012 fóru menn fyrst að stinga saman nefjum um fýsileika þess að opna lifrarniðursuðu í bænum. Þar fóru fremstir í flokki forsvarsmenn fyrirtækja í eyjum. Í framhaldinu komust á tengsl við danska fyrirtækið Amanda Seafoods sem hafði áhuga á því að slást í hópinn. Síðar bættust við fleiri hluthafar, útgerðir í Eyjum. Íslensku aðilarnir eiga 49% í fyrirtækinu á móti 51% sem er í eigu Amanda Seafoods. Fyrirtækinu var fundinn staður í gamalli saltfiskverkun á Garðavegi. Húsið var gert upp í takt við þarfir verksmiðjunnar sem var svo opnuð í lok apríl 2016.

Íslendingar stærstir á heimsmarkaðnum

Amanda Seafoods rak niðursuðuverksmiðjur í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum sem var ein af stóru tekjulindum fyrirtækisins. Sú starfsemi lagðist þó af vegna hækkandi styrks díóxíns í fiskum á þessum slóðum. Varan var ekki lengur hæf til manneldis.

Íslenskir framleiðendur á niðursoðinni lifur eru í einstakri stöðu í ljósi þessa. Hráefnið er gott og laust við mengun en bæta má umhirðu og meðferð því það er viðkvæmt í meðhöndlun.

„Íslendingar eru með hátt í 2/3 af heimsmarkaðnum fyrir niðursoðna þorsklifur. Við búum við tiltölulega hreinan sjó og gott hráefni og í augum útlendinga stendur landið fyrir hreinleika og gæði hvað sjávarafurðir varðar.“

Stefnt er að því að auka framleiðslu fyrirtækisins talsvert næstu árin. Núna eru framleiddar rúmar 3 milljónir dósa en Magnús segir að hægt væri með núverandi tækjakosti að auka framleiðsluna talsvert.

Keppt um lifrina

Helsta fyrirstaðan að aukinni framleiðslu er takmarkað framboð á lifur.

„Við fáum alla okkar lifur af bátum hérna í Vestmannaeyjum en að auki líka ofan af landi. Það framboð hefur verið að aukast. Það er samkeppni um hráefnið og það er bara hollt og gott.“

Hann spáir því að innan tíðar muni verð á þorsklifur til sjómanna hækka í takt við betri umhirðu. Nokkuð vanti enn upp á að vel sé gengið frá lifrinni og hún kæld með réttum hætti. Þess vegna er nýtingin til lifrarniðursuðu ekki nema 60-70%.

„Þetta eru því ekki sérstaklega góð kaup fyrir framleiðandann en ef hægt væri að ná nýtingunni upp í 85-90% gæti hann greitt hærra verð fyrir lifrina. Þetta yrði báðum til hagsbóta, sjómanninum og framleiðandanum,“ segir Magnús.

Hann segir að staðan hvað þetta varðar ekki hafa verið ólíka því þegar byrjað var að flokka heimilisúrgang. Það hafi verið kvöð og pína fyrir flesta í upphafi en nú flokki menn án þess að hugsa út í það sérstaklega. Hann tekur þó fram að umhirða og meðferð á lifur hafi batnað til muna á undanförnum árum.

Skötuselslifur fyrir matgæðinga

Magnús segir afkomu verksmiðjunnar háða gengisbreytingum því varan fer öll á erlenda markaði, mest til Frakklands, Spánar, Danmerkur og Japans.

Iðunn sýður einnig niður reykta skötuselslifur í litlu magni. Lítið framboð er af lifrinni og verð hátt. Kílóverð á skötuselslifur er þannig um 350 krónur meðan það er talsvert lægra fyrir þorskalifrina. Á yfirstandandi fiskveiðiári er úthlutað aflamark í skötusel rúm 800 tonn sem segir allt sem segja þarf um framboðið. Magnús segir að erfitt sé því að komast yfir skötuselslifur. Glófaxi, sem rann inn í Vinnslustöðina á síðasta ári, átti talsverðan skötuselskvóta og lagði upp lifrina hjá Iðunni Seafoods. Magnús segir að niðursoðin skötuselslifur sé lúxusvara sem jafnvel má líkja við kavíar. Mest hefur farið af henni til Frakklands og Danmerkur.