mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiddu 25.700 máltíðir á hverri mínútu

22. janúar 2019 kl. 12:00

Fiskvinnsla hjá Norway Seafoods. Aðsend mynd

Norðmenn hafa aldrei flutt meira út eða borið meira úr býtum en 2018.

Norðmenn fluttu út 2,7 milljónir tonna af sjávarfangi á síðasta ári og var útflutningsverðmæti þess 99 milljarðar norskra króna – eða 1.390 milljarðar íslenskra króna.

Um þetta er fjallað í norskum fjölmiðlum nú eftir áramótin en á heimasíðu norskra útgerðarmanna er það tiltekið að útflutningur Norðmanna jafngildi 37 milljónum máltíða – á hverjum degi allt síðasta ár. Það eru þá 25,700 máltíðir framleiddar á hverri mínútu, reiknast þeim til.

Vöxturinn milli ára reyndist vera um fjögur prósent í verðmætum en fimm prósent í magni. Því voru tekjur sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja 4,6 milljörðum meiri í norskum krónum talið miðað við árið á undan. Það eru 64 milljarðar íslenskra króna.

Góður vöxtur

Þegar líða tók á síðasta ár var gælt við það í fjölmiðlum, og innan greinarinnar, hvort 100 milljarða markinu yrði náð. Það tókst ekki en menn láta afar vel af sér – enn eitt ár vaxtar í magni og verðmæti innan sjávarútvegsins er staðreynd í Noregi. Reyndar hefur aldrei verið framleitt meira og aldrei hefur meira fengist fyrir sjávarfang í sögu norsks sjávarútvegs.

Þetta telst markverður árangur í ljósi þess að óvissa hefur verið nokkur á mörkuðum fyrir sjávarfang – bæði vegna Brexit, viðskiptastríðs Kínverja og Bandaríkjanna og annarra aðstæðna sem hafa haft áhrif á sölustarf. Evrópusambandslöndin keyptu meira af Norðmönnum nú en áður, og er það rakið til minni samkeppni og gengisþróunar norskrar krónu gagnvart evru. Hins vegar fór minna til Asíu vegna aukinnar samkeppni og erfiðs aðgengis á mörkuðum, segir Renate Larsen, stjórnandi hjá Norska sjávarafurðaráðinu (Norges sjømatråd).

Munar mest um eldið

Í frétt á vef norskra útgerðarmanna – fiskebat.no – segir að á síðustu tíu árum hefur útflutningur sjávarfangs frá Noregi aukist um 122 prósent. Má þá aukningu fyrst og síðast rekja til útflutnings fiskeldisfyrirtækja – sem eiga 72 prósent af útflutningsverðmæti sjávarfangs frá Noregi í fyrra. Alinn fiskur, og þá aðallega lax var rúm 40 prósent af seldu sjávarfangi í tonnum talið.