föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiðni vinnuafls eykst með tækniþróun

30. nóvember 2017 kl. 16:00

Fjöldi starfa í sjávarútvegi er um helmingi færri nú en fyrir tveimur áratugum

Framleiðni vinnuafls í sjávarútvegi hefur aukist mikið undanfarin ár. Á milli áranna 2005 og 2008 jókst sem dæmi framleiðsluvirði á hvert starf um 17 milljónir króna eða um 61%. Jókst framleiðsluvirði greinarinnar um 19% á þessum tíma á meðan starfsfólki fækkaði um 26,5%.

Framleiðni vinnuafls hefur aukist með meiri sjálfvirkni sem fylgir tækniframþróun við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Á árinu 2015 skilaði hvert starf rúmlega 48 milljónum króna og hækkaði framleiðsluvirði á hvern starfsmann um 24% frá árinu 2014. Þetta skýrist einna helst af hærra framleiðsluvirði greinarinnar á árinu 2015 en hækkunin nam 6% á þessum tíma ásamt því að starfsfólki í greininni fækkaði um 14%.

Helmingi færri
Fjöldi starfa í sjávarútvegi er um helmingi færri nú en fyrir tveimur áratugum. Á árinu 2016 störfuðu um 7.600 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4% af vinnuafli landsins og er hlutfallið í sögulegu lágmarki. Störfum í sjávarútvegi fækkaði um 1.300 frá árinu 2014 og þar af voru 1.000 störf í fiskiðnaði og 300 í fiskveiðum. Hefur störfum í greininni fækkað um 46,5% frá árinu 1997 eða um 6.600.

Frá þessum tíma hefur konum í greininni fækkað hlutfallslega meira en körlum. Á árinu 2016 voru 2.200 konur starfandi í sjávarútvegi eða um 29% af vinnuafli greinarinnar. Um 83% af störfum í sjávarútvegi á árinu 2016 voru á landsbyggðinni eða um 6.400 störf.

Fiskeldi í staðinn
Fækkun starfa í sjávarútvegi vegur mun þyngra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu enda eru rúmlega átta af hverjum tíu störfum í sjávarútvegi þar. Þróun starfa í fiskeldi er öfugt farið, þar starfa um þessar mundir um 560 manns og hefur þeim fjölgað um 20% frá árinu 2014, samkvæmt tölum frá Landssambandi fiskeldisstöðva. Fækkun beinna starfa í sjávarútvegi þarf því ekki að gefa til kynna að fjöldi starfa tengd sjávarútvegi, bæði bein og óbein, fari fækkandi um þessar mundir.

Heimild: Íslandsbanki. Íslenskur sjávarútvegur 2017.