þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framlög til Hafró skert um 200 milljónir

1. október 2009 kl. 17:22

Fjárframlög til Hafrannsóknastofnunar verða 1.357 milljónir króna á næsta ári og jafngildir það 201 milljón króna lækkun að raungildi frá fjárlögum þessa árs. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga ársins 2010 sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Gert er ráð fyrir að dregið verði úr rannsóknum stofnunarinnar og að haustrall fari aðeins fram annað hvert ár. Einnig verði dregið úr stofnmælingum á innfjarðarækju þar sem svæðum verður fækkað ásamt því að draga úr tíðni mælinga.

Rekstrarkostnaður vegna eldisstöðvar að Stað í Grindavík verður lækkaður, sýnatökum fækkað, dregið verður úr kostnaði vegna skipaleigu og leitað leiða til þess að bæta olíunýtingu rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar.

Þá er gert ráð fyrir að tímabundið 50 milljóna króna framlag í fjárlögum 2008 til þess að betrumbæta togararallið falli niður. Loks fellur niður tímabundið 32 milljóna króna framlag vegna rannsókna á Drekasvæðinu.