sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar eru ekki skúrkarnir

25. ágúst 2010 kl. 13:14

Norðmenn og ESB ofveiða makríl í tvöfalt meira mæli en Færeyingar á þessu ári. Þar af leiðandi sætta Færeyingar sig ekki við að vera úthrópaðir sem skúrkarnir í þessum veiðiskap.

Þetta segir Vilberg Sörensen formaður útvegsmannafélags Færeyja í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.

Fram kemur að Norðmenn hafi úthlutað sjálfum sér einhliða 35.000 tonnum af makríl úr svonefndum norðurhluta makrílstofnsins og bætist það við hlut Norðmanna úr heildarstofninum. Þar til viðbótar hafi Norðmenn úthlutað sér 69.000 tonnum af kvóta síðasta árs sem þeir ekki gátu veitt í fyrra vegna veiðihindrana af hálfu ESB, en ekki er gert ráð fyrir slíkum kvótaflutningi milli ára í samningum um nýtingu makrílsins. Með þessum hætti taki Norðmenn sér einhliða 104.000 tonn umfram þann kvóta sem þeim hafi verið ætlaður.

Ofveiðar ESB-ríkjanna felist hins vegar í því að þau taki sér einhliða 35.000 tonn úr svonefndum suðurhluta makrílstofnsins, sem þau halda fram að sé sérstakur stofn sem tilheyri þeim eingöngu. Jafnframt sé áætlað að ofveiði og brottkast á makríl hjá ESB-þjóðunum nemi 70.000 tonnum. Þar af leiðandi nemi ofveiði þeirra samtals 105.000 tonnum í ár.

Færeyingum var ætlaður 27.000 tonna kvóti í samningum um makrílveiðar þessa árs. Þeir hafa tekið sér 85.000 tonna kvóta. Mismunurinn er 58.000 tonn eða næstum helmingi minna en Noregur annars vegar og ESB-þjóðirnar hins vegar taka sér einhliða, segir Sörensen.