laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar ætla að flykkjast á makrílveiðar

1. júní 2010 kl. 13:15

Mikill áhugi er á makrílveiðum meðal færeyskra útgerðarmanna sem ekki hafa stundað þessa veiðar áður. Eftir að samningaviðræður strandríkja um makrílveiðar fóru út um þúfur í London um helgina er ljóst að færeysk stjórnvöld munu setja sér einhliða makrílkvóta í eigin lögsögu.

Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja lýsti því yfir nú í vor að næðist ekki samkomulag milli strandríkjanna um skiptingu makrílkvótans í ár myndu Færeyingar ákveða einhliða kvóta sér til handa upp á 150.000 tonn, en þeim hefur verið skammtaður 30.000 tonna kvóti á þessu ári.

Þar sem engin niðurstaða varð í London blasir við að áformum sjávarútvegsráðherrans verði hrint í framkvæmd. Á vef færeyska útvarpsins segir að mikill áhugi sé á veiðunum í Færeyjum og hafi 38 umsóknir nú þegar borist fiskimálaráðinu. Umsóknirnar séu úr öllum skipaflokkum, allt frá smábátum upp í stóra togara.