sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyski sjávarútvegsráðherrann mótmælir

24. ágúst 2010 kl. 12:00

Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jörgen Niclasen, hefur sent skoskum stjórnvöldum harðorð mótmæli vegna þess að skoskir sjómenn komu í veg fyrir það í síðustu viku að færeyski togarinn Jupiter gæti landað 1.150 tonna makrílfarmi í Peterhead í Skotlandi.

Útgerð togarans hafði samning við sjávarútvegsfyrirtæki á staðnum um kaup á makrílnum til manneldisvinnslu en skipið varð frá að hverfa og var farmurinn eingöngu nothæfur í bræðslu þegar komið var heim til Færeyja. Útgerðin skaðaðist um 100 milljónir króna á aðgerðum skosku sjómannanna.

Færeyski ráðherrann krefst þess í bréfi til skosku stjórnarinnar að hún grípi til viðeigandi ráðstafana til þess að hindra að aðgerðir sem þessar endurtaki sig. Hann minnir á að þessar nágrannaþjóðir hafi átt sérstaklega gott samstarf á ýmsum sviðum og þá einkum á sviði fiskveiða og viðskipta með fisk. Makríldeilan verði eingöngu leyst í samningum milli Færeyja, ESN, Noregs og Íslands.

Frá þessu er skýrt á breska sjávarútvegsvefnum IntraFish. Þar er þess ennfremur getið að aðgerðir sjómannanna í Peterhead njóti ekki stuðnings allra í skoskum sjávarútvegi. Þannig hafi talsmaður sjávarútvegsfyrirtækisins J. Charles í Torry fordæmt aðgerðirnar og bent á að allt að 70% af þeim fiski sem seldur væri í breskum matvörubúðum kæmi frá Íslandi og Færeyjum.