þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frjálsar síldveiðar í Kolgrafafirði til skoðunar

14. nóvember 2013 kl. 10:08

Frá hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði síðastliðinn vetur.

Ákvörðun um það tekin ef stórkostlegur síldardauði verður yfirvofandi.

Í sjávarútvegsráðuneytinu er til skoðunar  að heimila frjálsar veiðar smábáta fyrir innan brú í Kolgrafarfirði komi til þess að síldin gangi þar inn í miklu mæli og menn standi frammi fyrir því að óheyrilegt magn síldar drepist í kjölfarið. Þetta kemur fram í frétt frá ráðuneytinu. 

Eins og fram kom hér á vefnum fyrr í morgun hefur sjávarútvegsráðherra aukið heimildir til síldveiða í net úr 500 tonnum í 700 tonn. Ráðherra tekur fram að ekki verði aukið frekar við þessar heimildir. 

Í frétt ráðuneytisins segir ennfremur: 

„Síldveiðar smábáta við Breiðafjörð eru mikilvægar séð bæði út frá atvinnu- og byggðasjónarmiði og mun það verða skoðað með innleiðingu samningaleiðarinnar, sem nú er verið að vinna að og lögð verður fyrir Alþingi, hvernig hægt sé að nýta þann hluta sem ætlaður er til atvinnu- félags- og byggðaúrræða í ráðstafanir sem þessar. Með því þyrfti ekki að reiða sig á tímabundið bráðabirgðaákvæði sem þyrfti sérstakar ráðstafanir til hverju sinni sem því væri beitt.“