sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæði og öryggi í afhendingu

15. júní 2018 kl. 07:00

Arnar Pétursson, framkvæmdastjóri Leo Fresh Fish. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Þjálfari ÍBV á fullt í sölu á gæðaafurðum til Evrópu

Leo Fresh Fish í Vestmannaeyjum er sölufyrirtæki sem hefur markað sér þá sérstöðu að bjóða eingöngu hágæðavöru og leggur ríka áherslu á öryggi í afhendingum til viðskiptavina sem einkum eru franskar og belgískar matvörukeðjur og veitingastaðir. Arnar Pétursson, nýbakaður Íslandsmeistari í handbolta og nú fyrrum þjálfari ÍBV, er framkvæmdastjóri Leo Fish.

gugu@fiskifrettir.is

Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu Sigurjóns Óskarssonar og fjölskyldu, sem m.a. reka útgerð í kringum Þórunni Sveinsdóttur VE, auk þess sem starfsmenn eiga hlut í því. Fyrirtækið er með skrifstofur á Garðavegi í Vestmannaeyjum og deilir þar húsnæði með fiskvinnslunni Godthaab í Nöf sem vinnur talsverðan hluta þess hráefnis sem Leo Fish selur á erlenda markaði.

Arnar er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og starfaði áður meðal annars hjá Vinnslustöðinni. Hann réðst til Leo Fresh Fish þegar fyrirtækið var stofnað 2013.

Engar sveiflur í gæðum

„Við seljum fyrir nokkra aðila en stærstir eru hjá okkur Godthaab, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og Sætoppur í Hafnarfirði. Öll þessi fyrirtæki haldast í hendur með þá stefnu sína að bjóða eingöngu upp á gæðaafurðir og öll vinna og allur frágangur er til fyrirmyndar þar sem hráefnið er meðhöndlað eins vel og hægt er alla leið frá veiðum til afhendingar. Við vorum meðvitaðir um það strax í upphafi að rekstur svona fyrirtækis er langhlaup og við höfum ekki reynt að stytta okkur leið. Við viljum að allar okkar afhendingar séu ávallt eins og alltaf í toppgæðum. Okkur finnst mjög mikilvægt að orðsporið sé gott og að við getum afhent allt árið og það sem mestu skiptir að engar sveiflur séu í gæðunum.“

Talsverður hluti afurðanna sem unnar eru í Hafnarfirði og fyrir austan fer með flugi til Evrópu. Alls eru þetta allt upp í fjórar sendingar á viku.

„Við höfum nánast ekkert sent af því sem unnið er í Eyjum með flugi. Eins og ég sagði áður þá byggjum við allt okkar á stöðugum afhendingum og gæðum allt árið í kring og við gáfumst upp á því að reyna að koma vörunni frá okkur hér í Eyjum flugleiðis þar sem samgöngur sjóleiðina frá Eyjum geta verið afar erfiðar. Engu að síður fer því sem næst fjórðungur af allri okkar framleiðslu með flugi á markaði í Evrópu.“

„Það sem er unnið í Vestmannaeyjum er flutt sjóleiðina og nýtum við bæði Eimskip og Samskip sem koma hér við á leið sinni út. Eins notum við Norrænu fyrir austan og höfum alltaf verið að bæta við Í Mykinesið sem fer frá Þorlákshöfn.“

Auk þorskafurða lætur Leo Fish vinna fyrir sig afurðir úr ufsa, ýsu, lýsu, karfa, steinbít, löngu, blálöngu og skötusel.

„Það er fátt sem við höfum ekki prófað með okkar viðskiptavinum. Þorskurinn og afurðir hans eru auðvitað okkar aðal vara og svo verður áfram en við viljum þróa okkur í þá átt að geta boðið okkar kúnnum upp á flest það sem þeir eru að leita eftir í hverri viku. Við eigum töluvert í land með það verkefni en höldum því áfram.“