föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gæslan fær dróna með 800 kílómetra drægi

Guðjón Guðmundsson
25. febrúar 2019 kl. 16:00

Dróninn er af gerðinni Hermes 900 og vegur yfir eitt tonn. Gera má ráð fyrir að minni flugumferð heldur en yfir meginlandi Evrópu auki möguleika á nýtingu hans hér á landi.

Gæslan fær dróna með 800 kílómetra drægi

Landhelgisgæslan fær til prófunar mannlaust loftfar næsta sumar frá EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Önnur lönd hafa nýtt sér þjónustuna sem EMSA býður upp á en Ísland er fyrsta landið sem fær að prófa dróna af þessari stærð. Dróninn er af gerðinni Hermes 900 og vegur yfir eitt tonn. Gera má ráð fyrir að minni flugumferð heldur en yfir meginlandi Evrópu auki möguleika á nýtingu hans hér á landi.

„Við hugsum okkur gott til glóðarinnar að fá kynnast því hvernig hægt er að nýta dróna við eftirlitsstörf,“ segir Ásgrímur.

Loftfarið er með 15 metra langt vænghaf og þarf flugbraut til að taka á loft. Stjórnunartenging við drónann verður í gegnum gervihnetti og hann verður með mikið flugdrægi. Ásgrímur segir ákjósanlegast að stjórna drónum í gegnum fjarskiptasamband en það sé ekki raunhæft þar sem fjarskiptin draga ekki langt. Kostnaðurinn vex síðan mikið þegar greiða þarf fyrir tíma í gervihnöttum til að stjórna drónanum.

Verkefnið hefst í apríl og stendur yfir í þrjá mánuði. Allur meginkostnaður er greiddur af EMSA. Sextán manns fylgja drónanum en hingað til lands koma tvær áhafnir og eru tveir flugmenn í hverri áhöfn.

Ásgrímur segir að það þetta sé heilmikið ferli að undirbúa verkefnið. Margskonar þáttum þurfi að huga að, t.a.m. fjarskiptatíðni, staðsetningu og fleira. Strax varð ljóst að ekki mætti staðsetja drónann á Suðvesturlandi vegna mikillar flugumferðar þar. Nú hefur verið ákveðið að dróninn verður gerður út frá Egilsstöðum.

„Flugdrægið er það mikið að við náum alveg út í mörk efnahagslögsöguna fyrir austan-, norðan- og sunnanvert landið. Um borð verða myndavélar, ratsjár og AIS-móttakari. Fyrst og fremst erum við spenntir fyrir því hvernig tækið nýtist við leit og björgun sem og eftirlit.“

Hnattræn staða Íslands veldur því að aðgengi að gervihnattarsamböndum er takmarkaðri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Það eru því ákveðnar hindranir og áskoranir sem fylgja notkun dróna af þessu tagi sem ekki eru til staðar annars staðar í Evrópu. Það eru meðal annars áskoranir af þessu tagi sem EMSA þarf að kljást við.

Flugþol loftfarsins er tólf tímar, það kemst á 140 kílómetra hraða á klukkustund og drægið með gervihnattatengingu er um 800 kílómetrar.

Fréttin birtist fyrst í öryggisblaði Fiskifrétta 24. janúar.