þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gerir úttekt á rækjuveiðum í Guyana

Guðsteinn Bjarnason
26. maí 2019 kl. 07:00

Tveir rækjutogarar sem gera út frá strönd Guyana. MYND/Vottunarstofan Tún

Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns, segir þáttaskil hafa orðið í viðhorfum Íslendinga til vottunarmála.

Fyrir rúmu ári síðan fékk Vottunarstofan Tún fyrirspurn frá Guyana í Suður-Ameríku um að gera tilboð í úttekt á rækjuveiðum þar.

„Það er mjög áhugavert verkefni fyrir okkur á margan hátt, og líka áhugavert út frá sjónarmiði aukinnar sjálfbærni í sjávarútvegi og hvaða áhrif vottunarkerfið hefur,“ segir Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri og gæðastjóri stofunnar.

Guyana er á norðausturströnd Suður-Ameríku, austan við Venesúela. Flatarmál landsins er um 215 þúsund ferkílómetrar og þar búa um 780 þúsund manns.

„Rækjan er mjög mikilvægur fiskistofn fyrir það land. Lengi vel voru þetta fyrst og fremst smábátasjómenn sem sinntu þessum veiðum við Guyana, en á einhverju tímabili aukast þarna verulega veiðar og sérstaklega með tengingu við Evrópu og fyrirtæki í Evrópu.“

Þessi þróun hófst stuttu fyrir síðustu aldamót. Þá fóru veiðarnar yfir 10 þúsund tonn og hafa eftir aladmótin verið að sveiflast frá 15 þúsund tonnum upp í 25 þúsund tonn.

Hagsmunir í hættu
„Rækjuveiðarnar í Guyana eru mjög áhugaverðar út frá því sjónarmiði að á einhverju stigi málsins gera þeir sem eru að markaðssetja þessar afurðir sér grein fyrir því að stofninn kunni að vera í hættu ef ekki er gripið til ráðstafana. Sömuleiðis verða aðilar sem eru að markaðssetja rækjuna varir við það að bæði stórmarkaðir og neytendur eru að kalla eftir fiskafurðum úr vottuðum stofnum. Vegna ástands stofnsins og fiskveiðanna ákveða þeir sem sinna þessum veiðum að láta gera frummat samkvæmt MSC-staðli.“

Frummat á veiðum segir Gunnar vera eins konar skemmri skírn, ekki er ráðist í fullt mat strax heldur fyrst kannað hvort líklegt sé að veiðarnar muni standast fullt mat og hvaða úrbætur þyrfti að gera til þess að þær myndu standast það.

„Á grundvelli frummatsins taka hagsmunaaðilar í Guyana sig til og fara í mjög viðamikið og skipulegt úrbótaferli. Þeir hafa unnið þrekvirki á þessum árum síðan, sem leiðir til þess að við erum komin núna með drög að niðurstöðu þess efnis að þessar veiðar kunni að standast fullt mat, sem nú stendur yfir. Þannig að þetta er mjög gott dæmi um það hvernig þessi staðall og þessar kröfur eru að hafa jákvæð áhrif á fiskveiðistjórnun og nýtingu auðlindarinnar.“

Til þessa hefur Tún að mestu sinnt þjónustu við atvinnulíf á Íslandi, bæði sjávarútveg og landbúnað og raunar matvælaframleiðslu almennt. Starfið hefur þó einnig náð út fyrir landsteinanna, meðal annars með vottun fyrir íslensk sölufyrirtæki sem eru með aðsetur erlendis þó að þau séu í eigu íslenskra aðila.

Samstarf í Færeyjum og á Grænlandi
„Við höfum einnig átt samstarf við aðila bæði á Grænlandi og Færeyjum varðandi kynningu, fræðslu og vottun á lífrænni framleiðslu. Nokkur færeysk fyrirtæki og bændur hafa notið vottunarþjónustu okkar á því sviði. Þar á meðal Føroya Bjór í Klaksvík, eyjan Koltur, og framleiðendur á þangi og þara. Um tíma voru hörpudiskveiðar við Færeyjar einnig vottaðar af Túni samkvæmt MSC staðli.“

Vottunarstofan Tún er með faggildingu til að annast MSC-vottun hvar sem er í heiminum, þannig að vel er mögulegt að hún færi frekar út kvíarnar.

„Við höfum fengið fyrirspurnir héðan og þaðan úr heiminum og beiðnir um að skoða möguleika á því að meta sjálfbærni fiskistofna. Íslenskur sjávarútvegur er þekktur víða um heim fyrir að vera framarlega á því sviði og því ekki að undra að einhverjir horfi til okkar þjónustu á því sviði.“

Þar á meðal er fyrrnefnd fyrirspurn frá Guyana um vottun á rækjuveiðum þar í landi, og nú síðast barst fyrirspurn frá ríkjum við strönd Afríku um vottun á veiðum þar.

Sjálft matið fer þar fram með sama hætti og hér á landi. Að jafnaði eru ráðnir þrír matsmenn, allt sérfræðingar á sínu sviði, einn á sviði fiskveiðistjórnunar, annar á sviði umhverfismála og sá þriðji sem þekkir til stofnstærðarmats fyrir viðkomandi tegundir.

Þeir sem eru að meta rækjustofninn við Guyana hafa nú skilað af sér skýrslu sem hefur nú verið ritrýnd og birt opinberlega á vef MSC.

Andmæla beðið
„Skýrslan hefur verið rýnd, bæði innanhúss hjá okkur, og af ritrýnum með þekkingu á viðkomandi matssviðum. Ég legg áherslu á að matinu er ekki lokið. Núna bíðum við bara eftir að hagsmunaaðilar kynni sér málið og skili sínum umsögnum.“

Ef engin andmæli koma má vænta þess að lokaniðurstaða liggi fyrir í lok ágúst eða byrjun september. Berist einhver andmæli gæti ferlið dregist dálítið á langinn.

Gunnar segir að flestir þeirra matsmanna, sem vottunarstofan ræður til þess að gera mat fyrir tilteknar veiðar og fiskistofna séu fengnir erlendis frá.

„Það helgast annars vegar af því að Ísland er nú ekki stórt og það er ekki stór hópur fólks sem hægt er að leita til, en í öðru lagi er ástæðan sú að mjög margir af okkar hæfustu og færustu mönnum á sviði sjávarútvegs eru að vinna íslenska hagsmunaaðila eða stjórnstofnanir. Einhverjir þeirra gætu hugsanlega sinnt verkefnum erlendis á öðrum svæðum, en þá þurfa þeir að afla sér þekkingar og réttinda til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.“

Byrjaði á landbúnaði
Vottunarstofan Tún verður 25 ára í september á þessu ári.

„Hún var stofnuð 1994 og tilgangur hennar þá beindist fyrst og fremst að því að skapa forsendur fyrir vottun og setningu staðla á sviði lífrænnar framleiðslu og beindist þá að landbúnaði og landbúnaðarafurðum og vinnslu þeirra.“

Það er svo á árunum 2008 til 2010 sem veruleg eftirspurn verður eftir sjálfbærnivottun í sjávarútvegi, og er þá einkum litið til vottunarkerfis og staðla sem Marine Stewardship Council, MSC, hafði mótað, en sá staðall var eins og önnur sambærileg vottunarkerfi í meginatriðum byggður á viðmiðunarreglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995 um ábyrgar fiskveiðar.

„Eftir nokkra umhugsun og skoðun tókum við ákvörðun um að verða við þeirri eftirspurn. Í fyrstu gerðum við MSC frummat á veiðum á þorski, ýsu og steinbít. Fyrstu úttektir okkar á rekjanleika fiskafurða eru gerðar 2010 og fyrsta vottun á fiskistofnum á sér stað tæpu ári seinna, 2011. Síðan þá hefur þróun sjálfbærnivottunar verið mjög hröð.“

Síðan þá hafa flestir helstu nytjastofnar hér við land hlotið vottun samkvæmt MSC-staðli.

„Núna 8 til 9 árum seinna eru hvorki meira né minna 18 stofnar sem hafa farið í gegnum þessa vottun. Í magni er þetta komið yfir 90 prósent af veiðanlegu magni, ef ég man þetta rétt,“ segir Gunnar.

Fjölstofnamat í vinnslu
Um þessar mundir er Vottunarstofan Tún að vinna að fjölstofna mati, þar sem veiðar sjö stofna eru metnar í einu lagi.

„Um er að ræða veiðar með sex veiðarfærum, þannig að vottunareingarnar eru samtals 42. Þetta er með flóknari og viðameiri verkefnum á þessu sviði.“

Gunnar segir mikil þáttaskil hafa orðið hér á landi hvað varðar afstöðu til vottunar sjálfbærra veiða.

„Íslendingar voru nú ekki ginkeyptir fyrir þessu vottunarkerfi lengi vel og hafa kannski aldrei verið ginkeyptir fyrir vottun yfirleitt, en á því hafa orðið verulegar breytingar á síðustu árum og sérstaklega á þeim sviðum þar sem Ísland reiðir sig á aðgengi að mikilvægum hágæða- og háverðsmörkuðum, í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.“

Gunnar segir það enga tilviljun að Ísland skuli hafa náð jafn langt og raun ber vitni í sjálfbærnivottun.

„Þar með er ég ekki að segja að það sé vegna þess að hér sé allt í himnanna besta lagi, heldur er það fyrst og fremst vegna þess að hér er mjög öflugt samfélag um sjávarútveginn, vel útfærðar opinberar lagareglur og stefnumótun sem Alþingi og ráðuneytið halda utan um, og ekki síður mjög öflugar stofnanir sem tryggja eftirfylgni, rannsaka auðlindina og safna haldgóðum upplýsingum um nýtingu hennar,“ segir hann og nefnir þar sérstaklega Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnun.

„Þó að vottunarstofan eigi auðvitað drjúgan þátt í vottunarferlinu, hún framkvæmir úttektina og vottunina, þá er bakgrunnurinn þrotlaus vinna þessara stofnana og utanumhald íslensks sjávarútvegs á því sem er að gerast í veiðunum. Það er grunnurinn að því að þetta er hægt.“