mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Getur skipt á milli veiðarfæra í sama túr

21. maí 2018 kl. 12:00

Tölvugerð mynd af Cape Akona sem verður m.a. gerð út á tannfiskveiðar.

Smíða skip fyrir tog-, línu- og gildruveiðar.

Norska skipasmíðastöðin Båtbygg AS er að hefja smíði á fyrsta fiskiskipi í heimi sem útbúið verður fyrir tog-, línu- og gildruveiðar og getur skipt á milli veiðarfæra í einum og sama túrnum. Skipið verður 66,9 metrar á lengd.

Skipið er smíðað fyrir ástralska útgerðarfélagið Austral Fisheries og heitir Cape Akona. Hönnun er í höndum norska fyrirtækisins Skipskompetanse AS og er smíðað af Båtbygg AS í Måløy.

Cape Akona verður fyrsta og eina fiskiskipið í heimi af þessari stærð sem verður þannig útbúið að hægt verði að skipta á milli línu-, tog- og gilduveiða í einum og sama veiðitúrnum.

Skipið verður með tvinnaflrás, þ.e.a.s. dísilvél og rafmótor, og til framtíðar er ráðgert að hægt verði að knýja það eingöngu fyrir rafmagni með rafgeymastæðum.

Aðstaða verður í skipinu fyrir 40 manna áhöfn. Skipið verður meðal annars gert út á veiðar á tannfiski við Suðurskautslandið. Austral Fisheries er ein mikilvirkasta útgerð heims á sviði þessara veiða. Fyrirtækið er einnig umsvifamikið í rækjuveiðum en mestur hluti þeirra veiða fer fram á minni skipum.

Skipasmíðatöðin Båtbygg hefur um langan tíma smíðað skip fyrir Austral Fisheries. Gangi áætlanir upp verður Cape Akona afhent nýjum eigendum í apríl 2020.