sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð loðnuveiði úti af Finnmörku í Norður-Noregi

2. mars 2009 kl. 14:49

Norðmenn veiða nú loðnu úti fyrir strönd Austur-Finnmerkur í Norður-Noregi og hafa fengið góðan afla. Að minnsta kosti tveir bátar hafa farið með afla sinn til löndunar í Múrmansk í Rússlandi og fengu þeir 1,50-1,80 NOK fyrir kílóið eða jafnvirði 24-29 íslenskra króna. Þetta er nálægt lámarksverðinu í Noregi.

Í rússneska blaðinu Novaja Gazeta kemur fram að í búðum í Múrmansk seljist loðna til neytenda á 4 NOK kílóið (64 ISK) en í Moskvu á 16 NOK (256 ISK).

Talsmaður norska síldarsamlagsins segir í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren að hrognafylling loðnunnar sé núna 12,5-13 prósent sem þýði að unnt sé að setja í blandaða framleiðslu sem fari til Kína til flokkunar. Bíða þurfi heldur lengur þar til loðnan verði hæf til frystingar á Japansmarkað.