þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð afkoma í sjávarútveginum er gleðiefni fyrir samfélagið allt

24. október 2013 kl. 15:38

Adolf Guðmundsson

„Íslendingar hafa ástæðu til að vera stoltir af sjávarútveginum," sagði formaður LÍÚ í setningarræðu á aðalfundi LÍÚ

„Íslendingar hafa ástæðu til að vera stoltir af sjávarútveginum. Ástand fiskistofna er í lang flestum tilfellum gott og aflabrögð góð. Þorskstofninn hefur stækkað og hefur líklega ekki verið eins sterkur um áratuga skeið. Fiskveiðistjórnunarkerfi sem við höfum búið við getur stuðlað að áframhaldandi vexti í veiðum á komandi árum þó að við þurfum alltaf að búa við þá óvissu sem náttúran skapar," þetta kom fram í ræðu  Adolfs Guðmundssonar, formanns Landssambands íslenskra útvegsmanna, við setningu aðalfundar LÍÚ í dag.

Í ræðunni benti Adolf á að þótt mörg af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hefðiu skilað góðri afkomu að undanförnu sé það alls ekki algilt um fyrirtæki í sjávarútvegi. Það skjóti skökku við að þessari góðu afkomu skuli iðulega slegið upp sem neikvæðum fréttum í fjölmiðlum og í umræðum hér á landi. Góð afkoma skapi ekki aðeins eigendum  fyrirtækja í sjávarútvegi og starfsfólki betri kjör heldur öllu samfélaginu. Góð afkoma fyrirtækjanna væri forsenda þess að fyrirtækin og greinin í heild eigi sér framtíð, geti fjárfest í rannsóknum, tækniþróun og búnaði og þannig enn bætt stöðu sína í samkeppni á alþjóðlegum markaði fyrir sjávarafurðir.

Þá tók Adolf dæmi um það hve þróun afurða, betri nýting og markaðssetning geta margfaldað þau verðmæti sem veiðar og vinnsla gefa af sér. „Á árunum 1980 til 1984 var þorskafli Íslendinga að meðaltali um 390 þúsund tonn á ári. Hæst fór aflinn á þessum árum í 461 þúsund tonn og féll svo niður í 294 þúsund tonn árið 1983. Miðað við það ár þegar þorskaflinn var kominn niður í 294 þúsund tonn, árið fyrir kvótakerfið, nam framreiknað útflutningsverðmæti þorsks um 38 milljörðum króna núvirt miðað við gengi á dollara.  Á síðasta ári nam þorskafli 194 þúsund tonnum eða 100 þúsund tonna minni afla en verðmæti á sama grunni var meira en tvöfalt meira eða 83 milljarðar króna," sagði Adolf.

Sjá nánar á vef LÍÚ.

Sjá einnig umfjöllun á vef Viðskiptablaðsins.