þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður afli á Fugleyjarbanka

5. febrúar 2016 kl. 08:07

Þerney RE, eitt af skipum Granda.

Þerney RE veiðir vænan þorsk í norsku lögsögunni.

Ágæt veiði hefur verið á Fugleyjarbanka í Barentshafi eftir að Þerney RE kom þangað til veiða um miðjan janúar sl. Fyrsta vikan var mjög góð að sögn Kristins Gestssonar skipstjóra en síðan hafa aflabrögðin verið þokkaleg, að því er fram kemur á vef HB Granda.

,,Við höfum yfirleitt farið í tvo túra á ári hingað í norsku lögsöguna undanfarin ár og stefnan er sú að landa afla úr yfirstandandi túr í Reykjavík um miðjan febrúar og fara síðan strax aftur norður eftir,“ segir Kristinn en hann kveður aflann svo til eingöngu vera þorsk og sáralítið sé um meðafla.

,,Þetta er mjög vænn og góður þorskur. Hann hentar vel fyrir flökunarvélarnar en það er dálítið erfiðara að spá fyrir um það hver staðan verður í seinni túrnum. Þá förum við í hrognafiskinn á Lófótensvæðinu og hann á það til að vera stærri en þorskurinn á Fugleyjarbankanum. Í fyrra var hann í stærri kantinum fyrir flökunarvélarnar og það þurfti því að handflaka hluta aflans. Í fyrra var mjög mikið af ýsu með þorskinum en í ár virðist ýsan halda sig sér og á afmörkuðum svæðum. Við megum ekki stunda ýsuveiðar nema ýsan komi með þorskinum sem aukaafli. Það hefur verið lítið um það að þessu sinni,“ segir Kristinn.

Gott veður hefur verið í Barentshafi frá því að Þerney hóf þar veiðar og þar er nú eitt annað íslenskt skip að veiðum, Gnúpur KK sem kom á veiðisvæðið fyrir þremur dögum. Múlaberg ÓF er svo á leiðinni og Kleifaberg ÓF átti að leggja af stað í Barentshafið í dag.