föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænland: 8 þúsund tonn þorskkvóti

13. júní 2012 kl. 15:23

Frá Grænlandi

Fiskifræðingar leggja til að engar beinar þorskveiðar verði leyfðar utan skerja.

Náttúrurannsóknastofnunin í Grænlandi, sem annast veiðiráðgjöf þar í landi, leggur til að hámarksafli þorsks innan skerja (við ströndina) verði ákveðinn 8.000 tonn á næsta ári. Það samsvarar nokkurn veginn meðaltalsveiði síðustu tíu ára. Reyndar nam aflinn 11.000 tonnum í fyrra og því felur tillagan í sér um 3.000 tonna samdrátt milli ára.

Stofnunin veitir nú í fyrsta sinn tvískipta ráðgjöf, annars vegar fyrir svæðið sem kallað er innan skerja og hins vegar utan þeirra. Vísindamennirnir leggja til að engar beinar þorskveiðar verði leyfðar utan skerja. 

Mælingar fiskifræðinga sýna að þorskstofninn við Grænland er ennþá í lægð samanborið við stöðuna á tíunda áratug síðustu aldar. Ástandið batnaði þó árið 2005 og vilja vísindamennirnir tryggja þann bata með ráðgjöf sinni. 

Frá þessu er skýrt á vefnum sermitsiaq.ag