föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grimsby verði fríhöfn eftir Brexit

27. nóvember 2017 kl. 15:34

Frá fiskmarkaðnum í Grimsby.

Bresk stjórnvöld taka ekki illa í hugmyndina

Ekki er útilokað að breska ríkisstjórnin styðji tillögu borgaryfirvalda í Grimsby um að höfnin verði fríhöfn eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, að því gefnu að rétt skilyrði séu uppfyllt.

Þetta er niðurstaðan eftir  fjölda funda í síðustu viku milli fulltrúa Grimsby, fiskvinnslunnar og háttsettra þingmanna, þar á meðal George Eustice sjávarútvegsráðherra Bretlands.

Fundina sóttu einnig stjórnendur Young’s Seafood og Seachill, tveggja af stærstu fiskframleiðendum Grimsby.

Forgöngu að fundunum átti Martin Vickers, þingmaður fyrir Cleethorpes sem er aðliggjandi kjördæmi Grimsby. Undirliggjandi ástæða eru áhyggjur af því að Humbersvæðið almennt geti orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna tafa og skriffinnsku við Brexit útgönguna.

Einnig hafa heimamenn áhyggjur af hugsanlegum skorti á vinnuafli á svæðinu, ekki síst ef þeir fjölmörgu starfsmenn fiskvinnslunnar í Grimsby frá Austur-Evrópu ákveða að snúa til síns heima eftir útgönguna.

Sendinefndin hitti fyrst að máli þingmanninn Mark Prisk, sem hefur með höndum samskipti við Íslendinga, Norðmenn og Færeyinga sem eru mjög áfram um að tryggja fríverslunarsamning við Bretland eftir Brexit. Þessi þrjú lönd eru líka helstu hráefnisbirgjar fiskvinnslunnar í Grimsby.

Einnig átti sendinefndin samræður við Rishi Sunak, þingmann Richmond í Norður-Jórvíkurskíri, sem hefur talað fyrir ágæti fríhafna. Að endingu var fundað með sjávarútvegsráðherranum sem lýsti fullum skilningi á aðstæðum og vandamálum sem gætu risið í Grímsby við útgönguna úr Evrópusambandinu.