mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænlendingar óttast afnám rækjutolla ESB

13. október 2009 kl. 12:00

Evrópusambandið áformar að afnema 6% toll sem verið hefur á innfluttri rækju sem fer í frekari vinnslu innan sambandsins og kemur frá löndum eins og Kanada. Grænlendingar, sem flytja alla rækju tollfrjálst inn í ESB, óttast að þetta leiði til aukinnar samkeppni við Kanadamenn á þessum markaði og geti orðið grænlenskum rækjuiðnaði dýrkeypt.

,,Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sjómennina, rækjuframleiðendurna og þjóðina í heild,” segir Paviaaraq Heilman forstjóri stórfyrirtækisins Royal Greenland á grænlenska vefnum Sermitsiaq. Bent er á að rækjuframleiðendur í Grænlandi þurfi að búa við lágt rækjuverð og þessi ráðstöfun muni þýða aukna verðsamkeppni við rækju frá Kanada.

Markmið ESB með afnámi þessa tolls er að örva innflutning á rækju sem tekin er til frekari vinnslu innan sambandsins, svo sem í salöt, samlokur og fleira. Hingað til hefur verið 20 þúsund tonna kvóti inn í sambandið á slíkri rækju og hún hefur borið 6% toll. Þennan toll eru menn nú að tala um að afnema. Eftir sem áður er 20% tollur á fullunninni rækju í neytendaumbúðum frá löndum eins og Kanada sem ekki hafa sérstaka samninga um tollfrelsi við ESB.

Ísland nýtur tollfrelsis fyrir rækju inn í Evrópusambandið rétt eins og Grænlendingar nema ef hráefnið er frá landi sem ekki hefur tollfrelsissamning við ESB. Afnám rækjutollsins er ekki talin myndu skaða íslenska rækjuvinnslu nema síður væri, því íslenskir framleiðendur gætu þá keypt rækju frá Kanada til vinnslu án þess að 6% tollurinn legðist á vöruna við sölu inn í ESB.