fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grunur um verðsamráð

20. febrúar 2019 kl. 16:12

Skoskur lax

Skosk eldisfyrirtæki í norskri eigu sæta nú rannsókn samkeppnsyfirvalda Evrópusambandsins vegna gruns um verðsamráð.

Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins gerðu í gærmorgun húsleit á skrifstofum fjögurra laxeldisfyrirtækja í Skotlandi, en öll eru fyrirtækin í eigu norskra laxeldisfyrirtækja.

Ástæða aðgerðanna er grunur um verðsamráð. Norsku fyrirtækin fjögur eru Mowi, SalMar, Leroy Seafood Group og Grieg Seafoods. 

„Þetta hefur ekkert með skoskan lax að gera í sjálfu sér. Rannsóknin beinist eingöngu að norsku fyrirtækjunum,“ hefur fréttavefurinn IntraFish eftir ónafngreindum heimildarmanni sínum.

Heimildarmaðurinn fullyrðir ennfremur að ástæðu rannsóknarinnar megi rekja til orðróms um að norskættuðu fyrirtækin hafi stundað verðsamráð.

Fréttavefurinn UndercurrentNews greinir frá því að í bréfi, sem eldisfyrirtækjunum barst frá framkvæmdastjórn ESB sé fullyrt að upplýsingar hafi borist frá ólíkum aðilum innan laxeldisgeirans um að norsku fyrirtækin stundi verðsamráð.

Í þessu bréfi, sem sent var 19. febrúar, segir að norsku fyrirtækin séu grunuð um að hafa skipst á viðkvæmum markaðsupplýsingum og ákveðið verð í samráði. Einnig hafi þau ákveðið að kaupa frá samkeppnisaðilum þegar þeir bjóða lægra verð. Loks hafi þau komið sér saman um aðgerðir sem yrðu til þess fallnar að hækka markaðsverð á norskum eldislaxi.

Þetta samráð á að hafa staðið yfir að minnsta kosti frá árinu 2017 og sé að öllum líkindum enn í gangi.

Fjölmiðlar í Noregi, Bretlandi, Þýskalandi og víðar hafa fjallað um málið og spyrja sig hvort neytendur hafi verið blekktir til að greiða óþarflega hátt verð fyrir laxinn frá Skotlandi.

Mowi er stærsta laxeldisfyrirtæki heims, þekktara undir nafninu Marine Harvest, en breytt var um nafn á fyrirtækinu á síðasta ári. SalMar er nýorðinn stærsti eigandi Arnarlax á Vestfjörðum.

Á árinu 2018 voru framleidd 140 þúsund tonn af eldislaxi í Skotlandi. Fiskeribladet segir að helmingur framleiðslunnar komi frá eldisstöðvum í eigu norsku fyrirtækjanna þriggja.

gudsteinn@fiskifrettir.is