mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gullhólmi SH seldur frá Stykkishólmi

3. júní 2015 kl. 15:34

Gullhólmi var smíðaður í Noregi árið 1964 en hefur verið lengdur og endurbættur mikið í tímans rás. (Mynd: Jón Páll Ásgeirsson)

Kaupandi er GPG Seafood á Húsavík

Línubáturinn Gullhólmi SH hefur verið seldur frá Stykkishólmi. Kaupandi bátsins er GPG Seafood á Húsavík. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

 „Við erum að láta smíða nýjan 30 tonna línubát fyrir okkur hjá Seiglu á Akureyri. Hann á að afhendast í júlí eða ágúst. Það verður bátur með beitningarvél þar sem aflinn verður slægður um borð. Hann á að koma í stað Gullhólma. Við höfum hreinlega ekki haft nægar aflaheimildir til að halda Gullhólma úti nema í um sjö mánuði á hverju ári. Nýtingin á skipinu hefur því ekki verið nægilega góð þótt skipið sjálft hafi reynst okkur ákaflega vel. Við skiptum Gullhólma út og fáum nýsmíði sem ætti að verða hagkvæmari,“ segir Ellert Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Agustson í Stykkishólmi, sem átti og gerði Gullhólma út.

Gullhólmi er þekkt skip í íslenska fiskiskipaflotanum og hét áður til margra ára Þórður Jónasson EA. „Gullhólmi hefur verið afhentur nýjum eigendum og er nú í viðhaldi í slipp. Hann verður svo væntanlega gerður út frá Húsavík.“ GPG Seafood er ekki alls ókunnugt sjávarútvegi í Stykkishólmsbæ. Það á og gerir út línu- og netabátinn Þórsnes SH og er með saltfiskverkun í Stykkishólmi, segir á vef Skessuhorns.