sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hæsta vísitala þorsks frá upphafi rallsins

18. apríl 2017 kl. 16:06

Þorskur

Árgangar 2014 og 2015 nálægt meðaltali en 2016 árgangurinn lélegur samkvæmt fyrsta mati.

Stofnvísitala þorsks hefur hækkað nær samfellt frá árinu 2007 og mældist nú sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985. Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski og í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 55 cm yfir meðaltali rannsóknatímabilsins. Þetta kemur fram í niðurstöðum togararallsins. 

Í ár fékkst mikið af 85-105 cm þorski, en lítið mældist af 35-55 cm þorski sem rekja má til lítils árgangs frá 2013. Árgangar 2014 og 2015 mælast nú nálægt meðaltali í fjölda. Fyrsta mat á 2016 árgangi bendir til að hann sé lélegur.

Meiri útbreiðsla

Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið. Mest fékkst af þorski utarlega á landgrunninu, frá Víkurál norður og austur um að Hvalbakshalla, og óvenju mikið fékkst af þorski við sunnanvert landið.

Meðalþyngd nálægt meðaltali

Hjá flestum aldurshópum þorsks yngri en 7 ára var meðalþyngd nálægt meðaltali áranna 1996-2017. Mælingin í ár og í fyrra sýna þó að árgangurinn frá 2015 er sá léttasti frá 1996. Þorskur 7 ára og eldri mældist yfir meðalþyngd. Magn fæðu í þorski var um og yfir meðallagi og var loðna langmikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma. Mikið var af loðnu í mögum þorsks við suðurströndina og fyrir norðan land, en minna en oft áður út af Breiðafirði og Vestfjörðum. Af annarri fæðu má helst nefna kolmunna, síld, rækju og ljósátu.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.