föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hætti ekki fyrr en ég næ skammtinum

Gudjon Gudmundsson
26. júní 2020 kl. 13:14

Gísli Sverrisson, skipstjóri, háseti og útgerðarmaður.

Sigurborg II komin með um 13 tonn á strandveiðitímabilinu

Strandveiðivertíðin fór vel af stað en heldur hefur dregið úr veiðinni síðustu daga. Nú eru komin á land á sjötta þúsund tonn. 614 bátar eru við veiðar en voru 555 á sama tíma í fyrra. Gísli Sverrisson strandveiðimaður á Sigurborg II BA 312 frá Patreksfirði segir að ræst hafi betur úr málum en á horfðist í upphafi strandveiðanna á þessu ári.

Menn hafi mætt hálfkvíðnir til leiks í skugga Covid faraldursins, óvissa var á erlendum mörkuðum og fiskverð með lægsta móti. Gísli segir að þetta hafi reynst óþarfa svartsýni. Fiskverð hafi farið upp þó það sé ekkert í líkingu við það sem það var í fyrra og veiðarnar gangi ágætlega þótt meira þurfi að hafa fyrir þeim nú en á síðasta ári.

Gísli var nýkominn á sjó grunnt út af landi þegar samband náðist við hann enda var komin haugasjór lengra frá landi.

Góður bátur

„Ég er nýkominn á miðin en það er strax komið dálítið kropp. En það er hálfgerð bræla í þessu og ég er veltandi hérna um allar lunningar. Ég er búinn að frétta af þeim sem fóru hérna djúpt út að þeir séu núna í skítabrælu. En það kom gott skot hjá mér hérna í byrjun og ég hætti ekki fyrr en ég næ skammtinum,“ sagði Gísli.

Gísli byrjaði á strandveiðum sumarið 2017 eftir langt hlé frá sjómennsku. Hann segir að áhuginn hafi alltaf verið til staðar enda alinn upp við sjómennsku. Hann stökk á tækifæri sem honum gafst 2017 að kaupa bát úr dánarbúi bróður síns. Hann seldi svo bátinn síðastliðinn vetur og keypti Sigurborg II af móðurbróður sínum.

„Ég sé ekki eftir því. Þetta er góður bátur, fljótur á miðin og fljótur heim. Þetta er líka plássmeiri bátur og allur fiskur fer ofan í lest þannig að ég er ekkert ofan í körunum.“

Gísli rær einsamall og segir þetta geta orðið alveg þokkalegt puð í góðu fiskiríi og ekki síst ef það er dálítill veltingur með því. Stundum komi menn þreyttari í land úr brælu án þess að hafa náð skammtinum heldur en þegar skammturinn næst í góðu veðri. Það fari svo mikil orka í það að vera úti á sjó í brælum í þessum litlu bátum.

Á sjó í jakkafötum með skjalatösku

Afli Sigurborgar II á þessu strandveiðitímabili er farinn að nálgast 13 tonn og Gísli kveðst sáttur með það. Annað snið hafi verið á sjósókninni fyrri sumur. Þá hafi hann verið í annarri vinnu og fékk að skjótast á sjó þegar lítið var að gera í landi. „Staðan er því sú að núna er ég kominn með jafn mikinn afla og ég hafði eftir allt síðasta sumar.“

Gísli segir fiskverð hafa lagast og aflinn hafi selst án vandræða þrátt fyrir áhyggjur um annað fyrir strandveiðitímabilið.

„Viljinn stóð auðvitað til þess að vera í sama fiskverði og í fyrra. Eins og fiskverðið var þá lá við að maður færi á sjó í jakkafötum og með skjalatösku. Við vorum að sjá alveg upp í 600 krónur á kílóið og hlupum valhoppandi niður á bryggju á morgnana til þess að komast á sjó. Maður sá í hillingum nýjan bíl og hús að hausti. Við erum í öðru umhverfi núna en verðin hafa þó lagast og ég er sáttur eins og það er.“

Gísli vonast til þess að veiðarnar geti staðið fram í ágúst og telur ekki ólíklegt að svo geti orðið því það er ekki jafn rífandi gangur í veiðunum nú og undanfarin ár. Í hitteðfyrra hafi varla þurft að kveikja á dýptarmæli og skammturinn náðst á örfáum klukkutímum. Núna þurfi að hafa meira fyrir þessu og sækja þarf dýpra til þess að fá verðmætari fisk. Menn eru að fara allt að 35 mílum út frá höfn til þess að komast í verðmætasta fiskinn.