

Þar kemur fram að milli áranna 2015 og 2016 hafi hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt, svonefnd EBITDA eða verg hlutdeild fjármagns, lækkað sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs.
Í fiskveiðum og -vinnslu varð hlutdeildin 56 milljarðar árið 2016 og hafði hlutfallið þá lækkað, án milliviðskipta, úr 27,3% í 25,4%.
Í fiskveiðum lækkaði það úr 26,1% árið 2015 í 24,2% af tekjum árið 2016 og í fiskvinnslu úr 13,5% í 11,9%. Í fjárhæðum varð hlutdeild fiskveiða 33,3 milljarðar og vinnslunnar rúmir 22,7 milljarðar.
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegs í árslok 2016 tæpir 621 milljarður króna, heildarskuldir tæpir 360 milljarðar og eigið fé rúmir 262 milljarðar.
Þá kemur fram að veiðigjald útgerðarinnar hafi lækkað úr 7,7 milljörðum fiskveiðiárið 2014/2015 í 6,9 milljarða fiskveiðiárið 2015/2016.
Einnig kemur fram í riti Hagstofunnar að afkoma smábáta hafi versnað árið 2016. Alls voru 874 smábátar að veiðum og öfluðu rúmlega 24 þúsund tonna að verðmæti rúmlega 5 milljarða.
Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum lækkaði um 6,4% frá fyrra ári og verð á olíu lækkaði að meðaltali um 16,9% á milli ára. Gengi dollarans veiktist um 8,5% og gengi evrunnar um 8,7% á milli ára.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.