sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hagsmunir í húfi

27. júní 2018 kl. 07:00

Guðjón Már Sigurðsson fiskifræðingur við prófanir á fælum. MYNDIR/TRYGGVI SVEINSSON

Tilraunir með spendýra- og fuglafælur í þorsknetaveiðum.

Nýverið var fjallað um tilraunir með hvalafælur í Fiskifréttum sem Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir í tengslum við hið árlega netarall. Í þessari grein verður fjallað nánar um þessar tilraunir sem fóru fram núna í apríl og í fyrra.

Þessar tilraunir eru tilkomnar vegna þess að Bandaríkin ákváðu í fyrra að virkja lög sem kallast Marine mammal protection act, þar sem þeir hyggja á að takmarka innflutning á sjávarfangi ef að veiðarnar/ræktunin hefur skaðleg áhrif á sjávarspendýr. Ljóst er að þorskur veiddur í net við Ísland muni falla undir þessi lög vegna meðafla spendýra (aðallega hnísu) við netaveiðar.

Bæði í Norður-Ameríku og Evrópu hafa ýmisskonar tæki verið þróuð til að fæla smáhveli eins og höfrunga og hnísu frá netum, og er notkun á þeim jafnvel skylda í ákveðnum fiskveiðum. Þar gæti legið tæknileg lausn á vandamálinu hér á landi.

Fælurnar prófaðar á þremur svæðum

Þegar þessi tæki eru skoðuð, kemur í ljós að þrátt fyrir töluverða notkun hefur lítið verið um rannsóknir sem prófa virkni tækjanna beint í fiskveiðum vegna dýraverndarsjónarmiða. Því hefur virkni tækjanna verið metin með því að setja niður hljóðnema við tækið og bera saman tíðni smáhvelahljóða þegar það er kveikt og slökkt á tækinu. Þannig eru sum tæki sögð virka vel, þrátt fyrir að ekki hafi verið sýnt fram á að þau minnki meðafla smáhvela í fiskveiðum. Einnig er möguleiki að virkni sé ólík milli hafsvæða. Því var fyrsta markmið okkar að prófa þessi tæki í þorskveiðum hér við land.

Því var ákveðið að prófa algengt tæki frá Bretlandi, Fishtek Banana Pinger, í netaralli 2017. Fælan byggir á hátíðnihljóðum sem hún sendir frá sér með reglulegu millibili og er ein sú algengasta í notkun í Evrópu og N-Ameríku. Fælan var prófuð á þremur skipum, Þorleifi EA í Húnaflóa, Friðriki Sigurðssyni ÁR við Suðausturland og Magnúsi SH í Breiðafirði. Tilraunin fór þannig fram að paraðar trossur, ein með fælum og önnur án fæla, voru lagðar með 2 sjómílna millibili, en fjöldi para var 3-4 á hverju svæði.

Lítil áhrif á smáhveli

Í heildina veiddust 9 hnísur, og 2 hnýðingar. Fælurnar virtust hafa lítil áhrif á smáhvelin, og veiddust 5 hnísur og 1 hnýðingur í fælutrossunum en 4 hnísur og 1 hnýðingur í þeim fælulausu. Fælurnar höfðu ekki áhrif á heildarafla og tegundasamsetningu.

Þessi niðurstaða leiddi til þess að við fórum að skoða önnur tæki, og rákumst á fælur sem kallast PAL, og voru þróuð í Þýskalandi og Danmörku. Þessar fælur gefa frá sér upptökur af aðvörunarhljóðum hnísa sem tekin voru upp í sædýrasafni, og virkuðu vel við prófanir í þorsknetaveiðum í Eystrasalti þar sem meðafli var 70% lægri í netum með þessum fælum á.

Þessi nýja gerð af fælu var því prófuð í netarallinu 2018 á tveimur skipum, Þorleifi EA í Húnaflóa og Hvanney SF við Suðausturland. Auk þess voru græn ljós prófuð á Saxhamri SH í Breiðafirði, en ljós eru talin auka sýnileika netanna og þannig draga úr meðafla spendýra og fugla, en á sama tíma draga þorsk og aðra fiska að netunum. Tilraunin fór fram eins og árið áður, paraðar trossur voru lagðar, ein með fælum/ljósum og önnur án fæla/ljósa, og var fjöldi para svipaður á hverju svæði og árið áður.

Nær einungis hnísutarfar

Í PAL fælutilrauninni veiddust í heildina 23 hnísur, 12 í fælutrossur og 11 í trossur án fæla og virtust fælurnar því hafa lítil áhrif á meðafla smáhvela. Þegar gögnin voru skoðuð nánar kom samt ýmislegt áhugavert í ljós, því að í fælutrossunum komu nær einungis fullorðnir hnísutarfar á meðan kynjahlutfallið var nokkuð jafnt (7 tarfar og 4 kýr) í trossunum án fæla. Einnig voru 8 af törfunum staðsettir þannig í netinu að þeir voru alveg við fæluna, sem bendir til að það sé eitthvað við þessar fælur sem jafnvel draga að íslenska hnísutarfa, þó svo að þær fæli hnísur frá á öðrum hafsvæðum. Engin spendýr veiddust í ljóstilrauninni, svo ekki er hægt að segja mikið um virkni ljósa á meðafla spendýra. Hinsvegar veiddust 5 fuglar í tilrauninni, súlur og svartfugl, og veiddust þeir allir í trossum með ljósum, sem bendir til að ljósin dragi að sér sjófugla sem kafa og því ef til vill óheppileg fæla.

Þessar tilraunir sýna að það er ekki nægilegt að prófa tæki með hlustunartilraunum, nauðsynlegt er að prófa þau við sem raunverulegastar aðstæður, auk þess sem það er ljóst að munur er í atferli dýra milli hafssvæða sem getur haft áhrif á niðurstöðurnar. Áform eru að halda prófunum áfram á næsta ári, en hvaða búnaður verður notaður á eftir að koma í ljós. Þessi vinna mun verða í samstarfi við aðila í löndum í kringum okkur, eins og á Bretlandseyjum og Noregi, enda ljóst að þau þurfa líka að uppfylla þessi skilyrði Bandaríkjamanna.

Höfundur er Guðjón Már Sigurðsson fiskifræðingur hjá botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar.