mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hampiðjan verðlaunuð fyrir nýsköpun

25. janúar 2018 kl. 12:44

Hampiðjan

Einkaleyfi Hampiðjunnar eru orðin yfir 20 talsins og vernda fyrst og fremst uppfinningar í efnum veiðarfæra og vörur fyrir olíuiðnað.

Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í gær fyrir rekstrarárið 2016. Í tengslum við það uppgjör voru jafnframt veitt verðlaun fyrir nýsköpun, sem kom í hlut Hampiðjunnar að þessu sinni.

Í fréttatilkynningu segir að markmiðið með því að verðlauna nýsköpun hjá rótgrónu fyrirtæki sé að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum. Var það mat dómnefndar að Hampiðjan væri sönn fyrirmynd starfandi fyrirtækja þegar kemur að öflugu nýsköpunarstarfi.

Í tilkynningunni segir:

Í umsögn dómnefndar kemur fram að saga Hampiðjunnar hafi hafist í raun á mjög öflugri nýsköpun. „Áhersla fyrirtækisins á vöruþróun og nýsköpun hefur leitt til fjölda tækifæra sem nýtt hafa verið til fulls, opnað nýja markaði, framkallað skilvirkari framleiðsluaðferðir og skapað þeim sérstöðu á alþjóðavettvangi. Samhliða þessum áherslum hefur fyrirtækið vaxið, útvíkkað starfsemi sína til annarra landa og keypt netaverkstæði víða um heim. Einkaleyfi Hampiðjunnar eru orðin yfir 20 talsins og vernda fyrst og fremst uppfinningar í efnum veiðarfæra og vörur fyrir olíuiðnað. Áhugaverðar nýjungar eru jafnframt í farvatninu sem snúa að aukinni gagnaflutningsgetu í nýrri gerð veiðarfæra sem hafa munu mikil áhrif á veiðitækni framtíðarinnar.“ 

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, sagði á verðlaunahátíð í Hörpu í gær að starfsmenn fyrirtækisins litu á það sem heiður að taka við verðlaunum fyrir nýsköpun því mikil áhersla væri lögð á vöruþróun og nýsköpun í hinu daglega starfi. 

„Starfsmenn okkar eru sífellt með hugann við gera betur og þróa ný efni til veiðarfæragerðar ásamt því að endurbæta og endurhanna veiðarfærin enda lítum við á það sem eitt helsta hlutverk okkar að aðstoða viðskiptavini okkar í sjávarútvegi við að ná betri árangri í sínum störfum.  Þetta viðhorf starfsmanna fyrirtækisins undanfarna áratugi hefur gert Hampiðjuna að einum fremsta framleiðanda veiðarfæra í heiminum og skapað okkur fjölmörg tækifæri til að vaxa. Þessi verðlaun eru okkur því mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut og gera enn betur,“ sagði Hjörtur.