mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Háþróaðasta krabbaskip í heimi

Guðjón Guðmundsson
21. september 2018 kl. 12:00

Krabbaskip Nautic. MYND/STEINAR TULINIUS

Nautic Rus valið úr hópi sex evrópska fyrirtækja

Fedor Kirsanov, sem tók við sem forstjóri sjávarútvegsrisans
Russian Fishery, fyrr á þessu ári, sagði í samtali við Fiskifréttir á
sjávarútvegssýningunni í Pétursborg að ástæðan fyrir þeirri ákvörðun að ganga
til samninga við Nautic Rus, dótturfyrirtæki Nautic á Íslandi, væri sú að
fyrirtækið hefði hannað háþróaðasta krabbaskip í heimi. Russian Fishery býr nú
í haginn fyrir væntanlegt útboð á 50% af öllum krabbakvóta í vestur- og
austurhluta Rússlands.

Að sögn Kirsanovs eru reglurnar í tengslum við útboðið enn óljósar en talið er víst að einungis fyrirtæki sem láti smíða sín skip í Rússlandi verði gjaldgeng í útboðið. Það er dótturfyrirtæki Russian Fishery, Primcrab, sem gerir út á krabbaveiðarnar.

Ljóst er að gangi allt eftir eins og Russian Fishery planar þarf fyrirtækið að láta smíða fyrir sig allt að tíu krabbaskip til viðbótar. Óljóst er hvort það verði gert eftir teikningum Nautic Rus.

Þegar Kirsanov var spurður hvað hefði vegið þyngst á metunum í tengslum við hönnun á nýja krabbaskipinu sagði Kirsakov „sparneytni, fjölhæfni og áreiðanleiki. Eins og menn vita þá hefur enginn á síðustu 30 árum hannað krabbaskip frá fyrstu drögum að endanlegri gerð. Það veit því enginn hvað sparneytið krabbaskip er. Hugmynd okkar var því að leita að góðum samstarfsaðila sem getur viðað að sér þekkingu á því að hanna skilvirkt krabbaskip. Nautic er virkur þátttakandi í Rússlandi og raunar alls staðar. Við vissum af þeim. En þeir voru ekki einir um hituna.  Við leituðum tilboða hjá sex samkeppnisfyrirtækjum í tvöfaldri umferð. Nautic Rus var eitt af þeim fyrirtækjum sem varð fyrir valinu. Nautic Rus býður heildarlausnir; ekki einungis hönnun heldur hverja einasta teikningu sem er forsenda þess að skipið verður smíðað í Rússlandi af rússneskumælandi mönnum. Það er lykilatriðið. Það er hægt að skipta við fyrirtæki sem leggur fram hluta af verkinu en þá er enginn ábyrgur fyrir því að ljúka því. Þetta var eitt af lykilatriðunum í okkar huga fyrir því að velja Nautic Rus,“ segir Kirsanov.

Blik í augum starfsmanna

Hann segir að annað sem hafi aðgreint Nautic Rus frá öðrum samkeppnisaðilum hafi verið blikið í augum starfsmannanna. Það hafi lýst þeirri ástríðu þeirra að fá tækifæri til að hanna og smíða háþróaðasta krabbaskip í heimi.

Kirsanov segir hönnun krabbaskipsins ekki snúast um hughrif heldur hvernig það hafi tekist að draga það fram að lausnin er sú besta sem völ var á við hönnun á krabbaskipi. „Ég er ekki í tilfinningabissness. Ég er í peningabissness og við verðum að sjá til þess að nýtt krabbaskip skapi verðmæti og verði áreiðanlegt.“

Hluti aflans lifandi á markað

Primcrab gerir nú út fimm krabbaskip. Krabbakvóti fyrirtækisins er nú 3.000 tonn og krabbinn er seldur lifandi á markað í Kína, Japan og Kóreu. Kirsanov segir flotann mjög kominn til ára sinna. Núna stundi þau krabbaveiðar eingöngu úti fyrir Vladivostok flóanum. Með nýju kvótunum verður veitt mun víðar, til að mynda í Barentshafi. Þess vegna þurfi nýr floti krabbaskipa að þola meira álag t.a.m. með tilliti til ísingar. Hann segir Nautic Rus hafa leyst þau vandamál sem hljótast af ísingu með hönnun sinni.

„Ég vona að hönnun Nautic Rus sé byltingarkennd en ég get ekki haldið því fram ennþá. Ég tel að hönnun skipskrokksins dragi úr eldsneytiseyðslu og stuðli að auknum stöðugleika. Einnig býr skipið yfir nokkrum verkfræðilausnum sem aldrei hafa sést í krabbaskipum. Ég vil ekki fara út í smáatriði því í lausnunum felst framþróun sem við höfum unnið að í samstarfi með Nautic Rus. Þeir hafa fengið einkaleyfi á lausnunum en við höfum einkarétt á hönnuninni. Enginn annar en við getum því byggt nákvæmlega eins skip.“

Kirsanov segir að hluti aflans verði seldur lifandi á markaði og það auki að sjálfsögðu til muna verðmæti aflans. „Þó má ekki gleyma að markaðurinn er mjög óstöðugur. Berist of mikið af lifandi krabba á markað fellur verðið en hækkar að sama skapi ef magnið er lítið. Það þarf því alltaf að ríkja jafnvægi á þessu sviði og það verði gert með frystingu á hluta af aflanum. Okkar stærsti markaður fyrir lifandi krabba er Kína, um 70%, og um 30% fer til Japan og Kóreu.

„Ég vona að þú komir því til skila við lesendur Fiskifrétta að Íslendingar eiga lofsvert fyrirtæki sem nú hefur haslað sér völl í Rússlandi og starfar þar. Starfsmennirnir eru faglegir, ungir og metnaðargjarnir og eru spenntir fyrir verkefninu. Og þessu eigum við yfirleitt ekki að venjast frá evrópskum hönnuðum,“ segir Kirsanov.