föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi með 11,6% kvótans

13. september 2012 kl. 11:33

Örfirisey RE (Mynd: Alfons Finnsson)

Nokkur fyrirtæki eru rétt undir leyfilegu hámarki í grálúðu og uppsjávartegundum eins og síld og loðnu

 

HB Grandi er með mestan kvóta íslenskra útgerða, 11,6%, og er rétt undir kvótaþakinu í heild í þorskígildum talið, samkvæmt samntekt Fiskistofu. Nokkur fyrirtæki eru rétt undir leyfilegu hámarki í grálúðu og uppsjávartegundum eins og síld og loðnu.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild einstaks eða tengdra aðila í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

HB Grandi er með rúm 42 þúsund þorskígildistonna kvóta og fyrir utan að vera kvótahæsta útgerðin í heild er HB Grandi einnig hæstur í ýsu (6,60%), ufsa (17,56%) og karfa (31,92%).

Samherji er í öðru sæti í heild með 7,04% hlutdeild og tæp 26 þorskígildistonna kvóta. Samherji er einnig með mesta hlutdeild í þorski (6,36%).

Af einstökum tegundunum öðrum er Brim með mesta hlutdeild í grálúðu (19,99%) og er rétt undir þakinu. Skinney-Þinganes er með mest í íslensku sumargotssíldinni (18,97%). Ísfélag Vestmannaeyja er bæði með hæst hlutfall í loðnu (19,99%) og í norsk-íslenskri síld (20,15%) sem er aðeins meira en leyfilegt er.

Útreikningur til þorskígilda miðast við allar tegundir aðrar en þær sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu en eru þó kvótabundnar, þ.e. þorskur í Barentshafi og rækja á Flæmingjagrunni eru ekki talin með. Fyrirtækin í fimm eftu sætunum eru óbreytt frá síðustu úttekt í upphafi ársins. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum fer úr 9. í 6. sæti og hefur þar sætaskipti við Síldarvinnsluna. Ísfélag Vestmannaeyja fellur úr 8. í 11. sæti.

http://www.fiskistofa.is/umfiskistofu/frettir/nr/775