þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hefur fiskað 40.000 tonn á 8 árum

Guðjón Guðmundsson
11. febrúar 2019 kl. 09:50

Þórunn Sveinsdóttir VE. MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON

Þórunn Sveinsdóttir lengd um 6,6 metra í Danmörku.

Aflaskipið Þórunn Sveinsdóttir VE verður frá veiðum í tæpa fjóra mánuði frá og með næstu mánaðamótum. Til stendur að lengja skipið um 6,6 metra sem þýðir að pláss fyrir kör í lest fer úr 360 körum í 560 kör. Skipið er 40 metrar á lengd og 11,2 metrar á breidd en verður eftir breytingu 46,6 metrar.

Lengingin fer fram í skipasmíðastöðinni í Skagen í Danmörku þar sem Þórunn Sveinsdóttir var smíðuð árið 2010 fyrir útgerðarfélagið Ós ehf. í Vestmannaeyjum og hefur á þessum árum fiskað um 40.000 tonn og aflaverðmætið er 10,5 milljaðar króna.

„Það sem ég græði á þessari lengingu er pláss fyrir 200 kör til viðbótar í lestina. Það lengir úthöldin og veitir ekki af meira plássi eins og veiðin hefur verið. Það hefur verið alveg bullandi veiði undanfarið. Það er auðvitað ekki gott að missa skipið á þessum tíma en þessi tími gefur samt meiri möguleika á fiski á markaði fyrir vinnsluna og fiskverð er líka lægra á þessum tíma. Þetta er því kannski skásti tímapunkturinn til að missa hana úr rekstri,“ segir Sigurjón Óskarsson útgerðarmaður.

127 tonna löndun

Sem dæmi um aflabrögðin má nefna að Þórunn Sveinsdóttir landaði um síðustu mánaðamót 46 tonnum en þremur dögum fyrr var landað 127 tonnum, þar af 97 tonnum af ýsu og 24 tonnum af þorski. Á fiskveiðiárinu nemur aflinn um 2.500 tonnum, þar af 745 tonn af slægðum þorski, 421 tonn af ýsu og svipað af ufsa.

Meðan Þórunn Sveinsdóttir er í lengingu leigir útgerðin til sín ísfisktogarann Bylgjuna VE í tvo mánuði og fær skipið 20. febrúar næstkomandi. Sigurjón segir að það sé ekki leitað langt eftir leiguskipi. Þetta sé bræðrabandalaga því Þórunn Sveinsdóttir VE og Bylgjan VE er í eigu bræðranna Sigurjóns og Matthíasar Óskarssona.  Þórunn Sveinsdóttir verður svo afhent eigendum 15. júní næstkomandi.

Gott skip

Það kom þó ekki aðeins til af góðu að ákveðið var að fara með Þórunni í lengingu. Vegna mannlegra mistaka kom gat á síðu  skipsins þegar það var í slipp síðastliðið vor. Það kom ekki í ljós fyrr en fjórum mánuðum síðar og hafði þá sjór komist í einangrun á milli þilja.

„Það þurfti náttúrulega að lagfæra þetta og við ákváðum að fara í lengingu í leiðinni. Þetta er gott skip og hefur reynst okkur ákaflega vel. Við erum að byrja níunda árið á Þórunni Sveinsdóttur og á þessum átta árum hefur hún fiskað um 40.000 tonn og aflaverðmætið er um 10,5 milljarðar króna. Þetta hefur því gengið mjög vel og yfir engu að kvarta í því samhengi,“ segir Sigurjón.