sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hefur upplifað miklar breytingar

Guðjón Guðmundsson
2. ágúst 2021 kl. 08:00

Páll Jónsson GK. Mynd/JSS

Gísli V. Jónsson skipstjóri lýkur sínum sjómannsferli

Gísli V. Jónsson byrjaði til sjós áramótin 1965/1966 á Hásteini II frá Stokkseyri. 19. júlí síðastliðinn kom Páll Jónsson GK til hafnar í síðasta sinn fyrir sumarfrí og um leið lauk sjómennskuferli Gísla V. Jónssonar skipstjóra. Gísli segist þó langt því frá vera sestur í helgan stein. Framundan séu fjölmörg verkefni, heilsan góð og starfsorkan mikil.

Gísli hefur auðvitað sé miklar breytingar á þeim tíma sem hann hefur staðið vaktina. Þegar Fiskifréttir náðu tali af honum var hann á ferðalagi um Austfirðina einn síns liðs. Hann missti eiginkonu sína, Herdís Hermannsdóttir,  förunaut sinn til nærri hálfrar aldar, úr veikindum síðastliðið vor. Hann var fyrir austan meðal annars til að rifja upp Norðursjávarævintýrin þegar stærstum síldaraflans var landað í Danmörku og víðar. Hann segir það til marks um breytingarnar að allt útstímið var spilað bridds á tveimur borðum. Núna séu menn frekar hver í sínu horni með snjallsímana sína og ræðast vart við.

„Þetta voru mikið 30 tonna  bátar á Stokkseyri þegar ég var að byrja til sjós. Það var hvorki klósett né kamar á þessum bátum og menn notuðu fötu úti á dekki þyrftu þeir að ganga arna sinna. Nú vilja menn helst hafa sín einkasalerni, líkamsræktaraðstöðu og gott internet. Breytingarnar eru miklar sem þann tíma sem ég hef verið til sjós. Nú erum við með aðgang að um 500 sjónvarpsstöðvum en þegar ég var að byrja var ekkert sjónvarp og seinna sást einungis ríkissjónvarpið við illan leik sums staðar við landið. Það urðu líka miklar breytingar með internetinu þegar menn gátu farið að sjá um bankaviðskipti sín sjálfir og ýmislegt annað úti á sjó. Sumir sem eru gamlir í hettunni minnast á teygjulökin sem stærstu breytinguna. Ein af stóru breytingunum gerist upp úr 1980 þegar símar leysa talstöðvarnar af hólmi. Flotinn allur gat fylgst með þeim samtölum. Menn lögðu því gjarnan þá línu heima hjá sér að ekki yrði hringt í þá að óþörfu. Þegar þeir svo fengu upphringingu brá þeim mörgum í brún og töldu víst að eitthvað mikið væri að heima. Upphringingarnar voru því yfirleitt alltaf alvarlegs eðlis,“ segir Gísli.

Minni tengsli en áður

Síðast árið hefur Gísli verið skipstjóri á nýjum Páli Jónssyni, fyrstu nýsmíði Vísis í sögunni, en hjá fyrirtækinu hefur hann starfað í um aldarfjórðung við góðan orðstír. Hann segir gríðarlega breytingu í aðbúnaði hafa fylgt nýja skipinu. Nú er hver maður með sinn klefa með sjónvari og nettengingu. Þessi aðstöðumunur hafi sína kosti og galla. Þegar menn hafa matast fara þeir hver inn í sinn klefa og sjaldgæft að hitta nokkurn mann um borð nema rétt á vaktaskiptum. Tengslin milli áhafnarinnar sé minni en var á árum áður.

Aðspurður um hvort miklar breytingar hafi orðið í samfélaginu hvað varðar þekkingu á sjávarútvegi segir Gísli eftirfarandi sögu: „Síðasta vetur sat ég niðri í borðsal á vaktaskiptum og við vorum nokkrir að ræða um loðnuveiðarnar sem höfðu verið skertar en við vissum að það var heilmikið af loðnu á ferðinni en hún var dreifð og ekki í mælanlegu ástandi. Við höfum orðið fyrir barðinu á  þessu tvö síðustu árin því þorskurinn lítur helst ekki á krókana ef í boði er spriklandi loðna. Þarna var ungur strákur í áhöfninni sem horfði á mig drykklanda stund og spurði svo: „Hvað er loðna?“ Ég útskýrði þetta fyrir honum og hann vissi enn síður hvað kolmunni og spærlingur er. Hann vissi allt um þorsk og ýsu, ufsa og keilu. Ég held að þetta sé dálítið til marks um þá fjarlægð sem er orðin en samfélagið er allt mun flóknara en það var áður fyrr þegar sjávarútvegur og kannski landbúnaður að einhverju marki var undirstaðan fyrir öllu.“