miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimsaflinn ofreiknaður um tugmilljónir tonna

31. ágúst 2011 kl. 10:39

Fiskvinnsla í Kína

Kínverjar hafa um árabil gefið upp alltof háar tölur um afla sinn.

FAO, Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, þarf að leiðrétta aftur í tímann tölur sínar um heimsaflann því komið hefur í ljós að Kínverjar hafa gefið upp samtals 53 milljónum tonna meiri afla en raunin varð á árunum 1997-2006. Þar af var eldisfiskur ofreiknaður um 32 milljónir tonna og villtur fiskur um 21 milljón tonna.

Vegna þessa hefur heimsaflinn verið reiknaður niður um allt að 13,5% á ári á áðurnefndu tíu ára tímabili.

Í nýrri skýrslu FAO staðfestir Árni Mathiesen aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna þetta, en þar á bæ hefur lengi leikið vafi á því að uppgefnar tölur um stöðugt aukna fiskframleiðslu í Kína væru sannleikanum samkvæmar.

Fjallað er um þetta mál í norska blaðinu Fiskeribladet/Fiskaren og sú skýring talin líklegust að áætlunarbúskap í Kína á þessum tíma sé um að kenna. Tilhneiging hafi verið til þess á lægri stigum í kínverska kerfinu að færa framleiðslutölur um fisk og reyndar kjöt og hrísgrjón líka upp að þeim tölum sem búið var að áætla fyrirfram. Fullyrt er að þessi háttur sé nú aflagður og hafi kínversk stjórnvöld verið fús til samvinnu við FAO um að leiðrétta þessar rangfærslur. 

Kínverjar eru langstærsta fiskframleiðsluþjóð í heimi. Þeir veiða 15 milljónir tonna af villtum fiski á ári og framleiða 32 milljónir tonna af eldisfiski. Heildarafli úr veiðum og eldi í heiminum árið 2009 var 145 milljónir tonna. Hlutur Kínverja er því nálægt þriðjungur.