sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Heimsins stærsti smábátur“

3. mars 2017 kl. 14:00

T.A. Senior kominn á flot

Nýr 15 metra smábátur vekur athygli í Noregi

Verið er að leggja lokahönd á nýjan fullkominn bát, T.A. Senior, sem er sérsniðin inn í smábátakerfið í Noregi fyrir báta innan við 15 metra, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Báturinn er byggður á fjórum þilförum og er 8 metrar á breidd sem er rúmlega helmingur af lengd bátsins. Norðmenn segja að þetta sé „heimsins stærsti smábátur“ þótt deila megi um útlitið. Þess má geta til samanburðar að ekki munar miklu á breidd þessa smábáts og elstu skuttogaranna hér á landi. Til dæmis er Ásbjörn RE um 9,5 metrar á breidd.

Til að báturinn standist lengdarmælingar fyrir smábátakerfið er stefnið þverskorið. Hann mælist þannig nákvæmlega 14,99 metrar. „Laust stefni“ fylgir með sem fest er framan á bátinn útlitsins vegna eftir að norska siglingastofnunin hefur tekið bátinn út.  

T.A. Senior er útbúinn fyrir veiðar með dragnót og nót. Hann veiðir því bæði hvítfisk og uppsjávarfisk, svo sem síld og makríl. Um borð eru tvær aðgerðarlínur og RSW-kælitankar.  

Heildarkostnaður við T.A. Senior er um 34 milljónir (454 milljónir ISK). Fjórar kvótaeiningar hafa verið sameinaðar á bátinn sem er hámarkskvóti af hvítfiski og uppsjávarfiski sem leyfilegur er fyrir einn bát. Stefnt er að því að fiska fyrir um 9 milljónir á ári (um 120 milljónir ISK).

Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.