föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hlutfall sýktrar síldar minna en áður

6. janúar 2009 kl. 13:08

Kap VE, skip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum kom í gær með fyrsta síldarfarm ársins til Eyja en skipið er með um 600 tonn sem verður landað í Vinnslustöðinni.

Þar hefur síldin verið flokkuð, sýkta síldin tekin frá og ósýkt fryst til manneldis. Því verður haldið áfram.

Stefán Friðriksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir í samtali á vefnum sudurlandid.is að fyrstu prufur gefi til kynna að hlutfall sýktrar síldar sé minna nú en áður.

„Síldin var veidd í Breiðafirðinum og við munum flokka hana og vinna til manneldis. Fyrstu prufurnar benda til þess að hlutfall sýktrar síldar í þessum farmi sé minna en áður og það bendir allt til þess að sýkingin sé ekki að aukast, heldur sé sýkta síldin að drepast og þannig minnkar hlutfallið í aflanum.“

Stefán segir að Vinnslustöðin eigi enn eftir um 3500 tonn af síldarkvótanum sem dugi næstu tvær vikurnar eða svo. „Það fer auðvitað eftir veðri og hversu ákafir við verðum að sækja síldina.“

Ekkert skip Ísfélagsins hefur haldið til síldveiða á nýju ári.

„Við ætlum að bíða og meta stöðuna aðeins, skoða þetta dag frá degi. Við eigum um 2000 tonn eftir að kvótanum og viljum nýta það sem best. Uppsjávarskipin bíða í landi á meðan og við bíðum líka fregna af loðnuleit,“ segir Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins á Sudurlandid.is