mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hlýnun sjávar kann að ógna þorskinum í Barentshafi

10. ágúst 2011 kl. 12:00

Þorskur

Suðlægar tegundir færa sig norðar og stuðla að aukinni samkeppni um fæðuna í hafinu.

Á síðustu þrettán árum hafa 300 nýjar tegundir, botndýr og önnur smádýr, verið skráðar á hafsvæðinu utan við Finnmörku í Norður-Noregi. Þessir sjávarbúar hafa fært sig norður á bóginn vegna hlýnunar sjávar og munu keppa um fæðu við þær tegundir sem fyrir eru í Barentshafinu.

 Á þetta er bent í nýrri skýrslu frá norsku stofnuninni Direktoratet for naturforvaltning. Ingrid Bysveen ráðgjafi hjá stofnuninni segir í samtali við norska útvarpið að þessi þróun sé ógnvænleg. ,,Við getum ekki sagt fyrir um afleiðingarnar en við teljum að þetta muni skapa erfiðleika fyrir þorsk og aðra fiskistofna,” segir hún.

 Torleiv Brattegaard vísindamaður bendir á að auk þess sem hinar nýju tegundir auki samkeppni um fæðuna í hafinu geti hlýnun sjávar leitt til þess að fiskistofnarnir flytji búsvæði sín og hrygningarsvæði lengra norður á bóginn. Það eigi við um þorsk, ýsu, grálúðu og margar aðrar tegundir.