þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hnúðlaxagöngum líkt við innrás

Svavar Hávarðsson
24. júlí 2021 kl. 09:00

Í tveimur norskum ám hafa þegar verið dregnir fleiri hnúðlaxar á þurrt en allt árið 2019. Mynd/Regine Emilie Mathisen

Svörtustu spár Norðmanna um hnúðlaxagengd í norskar ár að rætast.

Nú þegar hefur Náttúrurannsóknastofnun Noregs (NINA) borist tilkynningar um rúmlega 13.000 hnúðlaxa veidda í norskum ám og á annað þúsund á stöng úti fyrir strönd landsins. Um bráðabirgðatölur er að ræða og talið að þessar tölur séu miklum mun hærri.

Strax árið 2019 var talið öruggt að hnúðlaxagengd í norskar ár yrði mikil í sumar. Nú þegar er ljóst að svörtustu spár þar um hafa ræst. Myndir og fjöldi frétta frá Noregi sýna að inn í árnar eru að ganga torfur af þessum vágesti sem helst mætti líkja við síldartorfur. Vandinn er mestur í Norður-Noregi þar sem reynt er að andæfa með því að draga fyrir í hyljum ánna. Hver slík aðgerð skilar hundruðum hnúðlaxa en vart sér högg á vatni.

Í fréttatilkynningu frá NINA segir að aðeins í tveimur norskum ám hafa þegar verið dregnir fleiri hnúðlaxar á þurrt en allt árið 2019. Ástandið er verst í Finnmörku. Þar eru árnar Vestre Jakobselva og Munkelva nefndar og fullyrt að hnúðlaxagöngurnar séu mun stærri en af hinum náttúrulega laxi sem þar er að finna, en um fornfrægar laxár er að ræða.

Hnúðlax hefur veiðst í ám með allri ströndinni frá rússnesku landamærunum í norðri til sænsku landamæranna í suðri. Utan Noregs greina fréttir af hnúðlaxagöngum í Skotlandi, Írlandi, Svíþjóð og Danmörku. Þar er ekki nefnt að hnúðlax er tekinn að veiðast í íslenskum ám en aldrei hafa veiðst eins margir hnúðlaxar hér og sumarið 2019 þegar þeir voru á þriðja hundrað, að því er Hafrannsóknastofnun hefur greint frá.

Óboðinn gestur

Hnúðlaxinn, sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í norðanverðu Kyrrahafi, með hrygningarstofna austan þess í Bandaríkjunum og Kanada og vestan þess í Rússlandi, Japan og Kóreu. Hnúðlaxinn er ein af þeim tegundum Kyrrahafslaxa sem deyr eftir hrygningu. Þar sem lífsferillinn er mjög staðlaður, seiði ganga til sjávar stuttu eftir klak og fiskurinn eyðir svo ári í sjó áður en hann gengur til hrygningar, þá eru hnúðlaxgöngur í mörgum ám aðeins annað hvert ár.

Ástæðan fyrir því að hnúðlax er að finna í vistkerfum fyrrnefndra landa má rekja til rússneskra tilrauna með útsetningu frjóvgaðra hrogna í ár á Kolaskaga. Hófust þær árið 1956 þar sem notuð voru hrogn úr stofni ættuðum frá suðurhluta Sakhalin-eyju. Þær tilraunir gáfust illa og það var ekki fyrr en notuð voru hrogn úr norðlægari stofni frá Magadan héraði í Síberíu sem sjálfbærir stofnar mynduðust í Hvítahafi og Barentshafi.

Bara byrjunin

Í fréttatilkynningu NINA segir að reynslan frá því 2019 kenni að stór hluti hnúðlaxagöngunnar komi í ágúst. Því gæti ástandið í ám Noregs eftir að versna enn.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa varað við því að ekki sé útilokað að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám og þess vegna er mikilvægt að veiði slíkra fiska sé vandlega skráð. Sérstaklega er því hvatt til þess að stofnuninni sé greint frá því undantekningarlaust þegar hnúðlax veiðist hér, og sama hvar.

Hér er nauðsynlegt að nefna að Hafrannsóknastofnun óskar eftir upplýsingum um veidda hnúðlaxa í íslenskum ám.