föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hörpudiskur í hægum bata

29. október 2009 kl. 15:00

Hörpudiskurinn í Breiðafirði er í hægum bata eftir hrun vegna sýkingar þótt stofninn sé enn aðeins brot af því sem áður var. Sýkingin er í rénun og stofninn hefur stækkað lítilsháttar. Þessar upplýsingar koma fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Mælingar á ástandi hörpudisks fóru fram á Dröfn RE dagana 14.-18. október. Hrafnkell Eiríksson, leiðangursstjóri um borð í Dröfninni, segir í samtali við Fiskifréttir að vísitala stofnstærðar sé ennþá mjög lág í sögulegu samhengi. Þó hefðu þeir mælt stofninn 10% stærri í ár en hann var í fyrra. Stofnvísitalan í ár sé samt aðeins 14% af því sem hún var að meðaltali árin 1993-2000.

Léleg nýliðun hefur verið í hörpudiskinum undanfarin ár, þ.e. árgangarnir 2004-2007. Í leiðangrinum kom í ljós að 2008 árgangurinn er lítil en þó öllu skárri en 2006 og 2007 árgangarnir.

Fram kemur hjá Hrafnkeli að í mælingum síðastliðin 3 ár komi skýrt fram að sýkingin í hörpudisknum hafi verið að minnka. ,,Ég held að sýkingarhlutfallið sé orðið mjög lágt og eru það mjög ánægjuleg tíðindi,“ segir Hrafnkell.