mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hreinsun í Kolgrafarfirði gengur vel

21. febrúar 2013 kl. 10:41

Hreinsun í Kolgrafarfirði. (Mynd af vef atvinnuvegaráðuneytisins)

Búið að grafa 10 þúsund tonn af dauðri síld.

 

Hreinsun í Kolgrafafirði gengur mjög vel en áætlað er að búið sé að grafa um 10 þúsund tonn af dauðri síld í fjöruna. Búið er að flytja um 340 tonn af grút úr fjörunni til urðunar í Fíflholti og verður því starfi haldið áfram næstu daga.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa verið í nær daglegu sambandi við bændur á Eiði í Kolgrafafirði auk þess sem sérfræðingur stofnunarinnar gekk um fjörur og tók sýni í firðinum í vikunni. Eins hafa sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar verið við vöktun í firðinum í vikunni, m.a. með það að markmiði að meta umfang dauðrar síldar á fjarðarbotni.  Verður það gert með reglubundnum hætti fram á vor. Þá er grannt fylgst með súrefnismettun í firðinum.

Sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hófu í dag tilraunir með tvennskonar tæki í því skyni að fæla burt lifandi síld og háhyrninga út úr firðinum en til mikils er að vinna að koma í veg fyrir að síld drepist þar á ný. Óljóst er þó með öllu hvort slíkar aðgerðir skili árangri, enda um tilraunaverkefni að ræða.

Þá vinnur Hafrannsóknarstofnun að áætlun um rannsókn á orsökum síldardauðans og hefur átt í samræðum við Vegagerðina um hugsanleg áhrif þverunar fjarðarins í því sambandi.

Ekki hafa borist nýjar fréttir af grútarblautum örnum og hafa engir ófleygir ernir fundist.