sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hreysti er besta sjúkdómsvörnin

3. maí 2008 kl. 13:12

Komið hefur í ljós í forverkefni styrktu af AVS sjóðnum að sumar bleikjufjölskyldur hafa meira þol gegna sjúkdómum en aðrar og því mikilvægt að nýta slíkar fjölskyldur til kynbóta í eldi, að því er fram kemur á heimasíðu AVS. Náttúrulegt hreysti er ákjósanlegasta sjúkdómsvörn fyrir alla eldisfiska jafnt og aðrar lífverur.

Hin ört vaxandi þekking á erfðaeiginleikum fiska og samspili hýsils og sýkils í sýkingarferlinu hefur leitt til þess að rannsóknir á arfgengi sjúkdómsþols hafa fengið aukið vægi. Miklar vonir eru bundnar við þróun bleikjueldis á Íslandi og unnið hefur verið að kynbótum bleikju um árabil. Kýlaveikibróðir er sá smitsjúkdómur sem mestum skaða veldur í íslensku bleikjueldi.

Í rannsókninni var kannað næmi sjö mismunandi bleikjufjölskyldna fyrir smiti með kýlaveikibróðurbakteríu. Niðurstöður sýndu að þrjár fjölskyldur höfðu marktækt meira þol gegn sjúkdómnum en aðrar fjórar fjölskyldur, sem prófaðar voru.