þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hringuðu landið og gerðu góðan túr

Guðjón Guðmundsson
18. apríl 2020 kl. 09:00

Tómas Þorvaldsson GK að koma til Grindavíkur. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Tómas Þorvaldsson GK með mikil aflaverðmæti.

„Þetta var fínn túr en langur. Gengið er líka hagstætt um þessar mundir,“ segir Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni GK sem kom með aflaverðmæti upp á tæpar 338 milljónir króna í síðustu viku. Þetta eru mestu aflaverðmæti sem skip hjá Þorbirni hafa komið með úr einni veiðiferð.

„Við vitum svo sem ekki hvað er að gerast á mörkuðum núna. Við vonum að verðmætin standi en ég reikna frekar með því að þau falli eitthvað,“ segir Bergþór.

Eins og staðan er á mörkuðum þá fer mest af afurðunum í birgðir. Aflinn í veiðiferðinni var 750 tonn upp úr sjó af blönduðum afla og afurðirnar sem unnar voru úr aflanum voru 443 tonn. Upp úr sjó komu 241 tonn af þorski, 68 tonn af ýsu, 158 tonn af ufsa, 45 tonn af djúpkarfa, 103 tonn af gullkarfa, 77 tonn af grálúðu og eitthvað af öðrum tegundum. Túrinn stóð yfir í 34 daga og var farið hringinn í kringum landið. Staðan fyrir sjófrystar afurðir er þó líklega skárri en fyrir ferskan fisk. Hafði Bergþór haft fregnir af því að sex mánaða bið væri eftir frystikistum í Bretlandi sem er til merkis um að margir séu að birgja sig upp af frystum matvælum.

Tveir síðustu dagarnir skiluðu vel

Haldið var á miðin 26. febrúar. Bergþór segir þetta hafa verið langan túr en þó ekki í líkingu við lengsta túrinn sem hann fór sjálfur í Smuguna 1995 sem stóð yfir í 62 daga. Túrinn núna var vísvitandi lengdur um tvo daga því þannig stóð á að ekki var nægur mannskapur í Grindavík til að landa vegna veikinda.

„Það fæst mjög gott verð fyrir grálúðu. Við höfðum 39 milljónir króna út úr tveimur síðustu dögum túrsins. Annar sólarhringurinn var 22 milljónir og sá seinni um 17 milljónir og þetta var allt grálúða og þorskur. Við vorum komnir með tíu tonn af grálúðu eftir einhverjar fimm klukkustundir. Það hefur ekki gerst síðan ég var að byrja til sjós í gamla daga. Við fengum þetta á Seyðisfjarðardýpi og kantinum þar suður eftir.“

Mikið af aflanum fékkst einnig á Selvogsbanka, Jökuldýpi, Eldeyjarbanka og Skerjadýpi. Einnig var farið á lúðuslóð norður af Horni. Þaðan var haldið í Reykjafjarðarál, austan við Grímsey, Langanes og loks í Seyðifjarðardýpið og hringurinn svo kláraður í Grindavík.

Ýsa út um allt

„Veðrið var nánast allan tímann óhagstætt miðað við að það var komið langt fram á marsmánuð. Þetta er erfiðara í svona veðrum en skipið er stórt og það er auðvitað allt annað að vera á svona stóru skipi í tíðarfari eins og þessu.“

Þorbjörn tók við Tómasi Þorvaldssyni í júní í fyrra og hét skipið áður Sisimiut. Bergþór hefur verið skipstjóri upp frá því á móti Sigurði Jónssyni skipstjóra, Áður var Bergþór með Gnúp GK. Hann hefur starfað hjá Þorbirni í um 20 ár.

„Ef tíðarfarið fer að skána förum við örugglega að liggja meira yfir rauðum karfa og grálúðu. Það er hægt að selja allt á Asíu, bæði grálúðu og rauðan karfa, en svo ræður kvótastaðan þessu líka. Við eigum mikið eftir af grálúðu og rauðum karfa og förum að sinna þessu með betra tíðarfari. Ýsu- og gullkarfakvótarnir voru skornir svo grimmt niður og það er að valda okkur dálitlum vandræðum. Frystiskipin hafa verið að taka þessar aukategundir en þegar niðurskurðurinn er svona mikill rýrist sóknarmáttur okkar. Ég eiginlega skil ekki þennan mikla niðurskurð í ýsu og gullkarfa því það er til dæmis alls staðar ýsa og líka karfi. Þessi karfi sem við fengum núna síðast, þessi 103 tonn, var bara meðafli en ekki afli í beinni sókn. Það skipti ekki máli hvort við værum fyrir vestan eða hérna fyrir sunnan var alls staðar ýsa en þó ekki fyrir austan.“