mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hundrað ára síldarbræðslusaga á Siglufirði á enda

19. ágúst 2011 kl. 12:07

SVN - verksmiðjan á Siglufirði. (Mynd af vefnum sksiglo.is)

Framkvæmdir hafnar við niðurrif á síldar- og loðnubræðslu SR á Siglufirði

Nú eru hafnar framkvæmdir við niðurrif á síldar- og loðnubræðslu SR á Siglufirði. Núverandi eigandi, Síldarvinnslan á Neskaupstað, ákvað að leggja þessa verksmiðju af, og hefur allur tækjabúnaður verið seldur til Spánar, að því er fram kemur á vefnum sksiglo.is.

Verktaki að niðurrifi véla og búnaðar er Vélsmiðjan Héðinn h/f Reykjavík. Síðan eru undirverktakar í rafmagni og SRV vélaverkstæði á Siglufirði.

,,Þetta niðurrif stærstu fiskimjölsverksmiðju landsins, SR 46, og þeirrar síðustu á Siglufirði ber upp á hundrað ára afmæli fiskimjölsiðnaðar á Íslandi. Það var í ágústmánuði árið 1911 að tvær nýjar verksmiðjur voru gangsettar með nokkurra dag millibili. Það voru Bakkevigsverksmiðjan á Eyrinni, þar sem Primex er nú, og Evangersverksmiðjan á Staðarhólsbökkum austan fjarðar. Þess viðburðar er ætlunin að minnast sérstaklega að ári, en þá mun Síldarminjasafnið í samvinnu við félag fiskimjölsframleiðenda efna til málþings og standa fyrir farandsýningu um sögu bræðsluiðnaðarins í landinu,“ segir ennfremur á vef sksiglo.is.