þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvergi talað um sjávarútveg með sama hætti og á Íslandi

28. október 2010 kl. 10:35

Jón Guðmann Pétursson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar hf. segir í samtali við Fiskifréttir að aðgerðir stjórnvalda hafi slæm áhrif á sjávarútveginn. ,,Við finnum nú fyrir ótta og kvíða varðandi framtíðina hjá greininni. Menn halda að sér höndum enda framtíðarsýnin í besta falli óljós. Þetta óvissuástand seytlar inn í þjónustufyrirtækin og hefur þannig neikvæð áhrif út í þjóðfélagið,“ segir Jón.

Jón gat þess einnig að umræðan um sjávarútveg á Íslandi væri yfirgengileg að hans dómi. ,,Það er sök sér þótt einhverjir óreyndir stjórnmálamenn kjósi að vekja á sér athygli með lýðskrumi en mig undrar meir hvernig álitsgjafar t.d. í spjallþáttum ríkisfjölmiðlanna – jafnvel prófessorar  – tala um þá sem starfa í sjávarútvegi. Þeim er lýst sem óheiðarlegum bröskurum sem séu upp til hópa á framfæri ríkisins og það eigi að taka af þeim veiðiheimildirnar og láta aðra hafa. Og þetta skal allt gert í nafni réttlætis. Við höfum kynnst sjávarútvegi víða og fylgst með umræðu um sjávarútvegsmál í mörgum löndum í langan tíma. Ég fullyrði að hvergi í heiminum er talað um útgerðarmenn og þá sem starfa í sjávarútvegi með sama hætti og er í tísku að gera á Íslandi um þessar mundir,“ segir Jón Guðmann Pétursson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.