mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hverju skila 100 þús. tonn af loðnu?

27. janúar 2016 kl. 20:45

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Óeðlilegt að rannsóknaskipin liggi bundin við bryggju, segir framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar birtir á vef fyrirtækisins upplýsingar um það hvaða verðmæti 100 þúsund tonna loðnukvóti, sem ákveðinn hefur verið á þessari vertíð, skapi fyrir fyrirtæki, starfsfólk og ríkissjóð. Dæmið er eftirfarandi: 

Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu eru 11,6 milljarðar króna. Það eru 13 fyrirtæki í 10 sveitarfélögum í landinu sem koma að veiðum og vinnslu loðnunnar. 

 Áætla má að launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu nemi um 2,8 milljörðum króna. Það eru 17 skip sem koma að veiðunum, 4 vinnsluskip og 13 skip sem landa aflanum til vinnslu. Á þessum skipum má reikna með að séu 260 sjómenn í það minnsta og hafa þeir lifibrauð sitt af veiðunum. Í landi má reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna. Hafa tekjur á loðnuvertíð jafnan vegið þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna. 

Ekki hefur verið lagt mat á margfeldisáhrif þeirra fjármuna sem starfsfólk fyrirtækjanna aflar á loðnuvertíð og samfélagsleg áhrif tekna á loðnuvertíð í loðnubæjunum hafa heldur ekki verið metin. 

Áætla má að skatttekjur ríkisins af 100 þúsund tonnum af loðnu nemi tæplega 2,8 milljörðum króna. 

 

Rannsóknaskip við bryggju 

Gunnþór minnir á að loðnan drepist eftir hrygningu og því mikilvægt að góð gögn liggi að hverju sinni á bak við ákvörðun um nýtingu hennar. Síðan segir hann: 

"Það hlýtur að vera óeðlilegt í ljósi þess sem að framan er sagt að hafrannsóknaskip okkar liggi bundin við bryggju. Það er öllum ljóst sem að loðnuveiðum hafa komið að loðnan getur verið brellin og erfitt að ná utan um stofninn með mælingum. Þannig hafa komið ár þar sem búið er að leita og leita að loðnu án mikils árangurs en síðan hefur hún skyndilega birst í miklu magni einhversstaðar við landið án þess að menn hafi áttað sig á hvernig hún hafi gengið. Það er því grundvallaratriði að leggja áherslu á að rannsaka loðnuna sem best því það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækin, loðnubæina, starfsfólk og ríkissjóð. Það hefur ríkt gott samstarf á milli Hafrannsóknastofnunar og loðnuútgerðanna þegar þurft hefur að mæla loðnustofninn. Skoða þyrfti hvort ekki mætti auka það samstarf enn frekar og nýta tækjabúnað fiskiskipanna til upplýsingaöflunar," segir Gunnþór. 

Sjá pistil Gunnþórs í heild á vef Síldarvinnslunnar.