mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvernig skiptast tekjur í útgerð?

7. júní 2012 kl. 12:53

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson

Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir að til eigenda renni 9 krónur af hverjum 350 krónum.

Í grein í Fiskifréttum í dag gerir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar grein fyrir því hvernig tekjur í útgerð af hverju þorskígildiskílói skiptast (sjá meðfylgjandi töflu). Byggt er á tölum Hagstofunnar frá 2000 til 2010, sem greinarhöfundur segir að rými vel við upplýsingar úr bókhaldi Vinnslustöðvarinnar.  

,,Hér kemur fram að starfsmenn bera mest úr býtum eða liðlega 33% tekna. Olía, varahlutir, veiðarfæri og önnur aðföng taka til sín fjórðung teknanna en ríki og sveitarfélög fá tæp 18%. Lífeyrissjóðir eru eign starfsmanna, þótt ríkisvaldið sæki hart að þeim, en teljast þrátt fyrir það sem sérstakur liður.  Hlutur eigenda er 9 krónur í dæminu okkar. Ríkið hyggst nú leggja 50-60 króna skatt á hvert þorskígildi eða fimm- eða sexfaldan allan hagnaðinn!“ segir Sigurgeir Brynjar.  

Og hann bætir við: ,,Auðvitað sér hver heilvita maður að rekstur útgerðarfyrirtækja verður ekki með óbreyttu sniði ef slík ósköp ná fram að ganga. Ríkið ætlar sér þannig mun stærri hluta af kökunni og það gerist því aðeins að hlutur starfsmanna verði skertur, bestu skipin verði seld til að lækka skuldir og flotinn verði ekki endurnýjaður. Önnur ráð eru til ekki í rekstrinum, ef þau þá duga!“