mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í fyrstu veiðiferð sem ísfisktogari

14. janúar 2014 kl. 09:07

Helga María AK (Mynd af vef HB Granda)

Helga María AK í nýju hlutverki eftir breytingar.

Það voru tímamót í útgerðarsögu togarans Helgu Maríu AK um liðna helgi en þá var haldið af stað í fyrsta skipti í veiðiferð sem ísfisktogari. Helga María, sem áður hét Haraldur Kristjánsson HF, var ásamt systurskipinu Sjóla HF einn af fyrstu frystitogurunum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga og í ár verða liðin 25 ár síðan þessi systurskip komu til landsins.

Sú ákvörðun var tekin í byrjun síðasta árs að láta breyta Helgu Maríu í ísfisktogara og helgaðist sú ákvörðun stjórnar HB Granda m.a. af því að ákveðið hefur verið að leggja aukna áherslu á landvinnslu botnfisks hjá félaginu en draga úr sjófrystingu. 

,,Öllum prófunum í landi er lokið og nú verður búnaðurinn reyndur á sjó,“ segir Eiríkur Ragnarsson skipstjóri, sem verið hefur í áhöfn skipsins allt frá því að það kom til landsins árið 1989, fyrst sem 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri og síðar sem skipstjóri frá árinu 1995.

Að hans sögn verður fyrsta veiðiferðin nokkurs konar prufutúr. Fyrir vikið verða 17 skipverjar um borð auk fjögurra tæknimanna en miðað er við að 15 manns verði í áhöfn hverju sinni framvegis. Eiríkur segir að veðurspáin sé slæm fyrir næstu daga og það muni því reyna á skip og áhöfn svo ekki sé talað um tæknimennina.

Sjá nánar á vef HB Granda.