sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland fái í mesta lagi 4% af makrílkvótanum

2. desember 2011 kl. 10:33

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Yfirlýsing hagsmunaaðila í sjávarútvegi í Noregi og ESB fyrir makrílviðræður í næstu viku.

Boðaður hefur verið fundur í makríldeilu Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins á Írlandi í næstu viku og er þetta í þriðja sinn á þessu ári sem reynt er að finna lausn á málinu.

Af þessu tilefni hafa hagsmunaaðilar í sjávarútvegi í Noregi og ESB sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Þar segir að Ísland og Færeyjar hafi á ábyrgðarlausan hátt aukið hlut sinn í makrílveiðunum úr 6% árið 2006 í 45% árið 2011. Hagsmunaaðilar í Noregi og ESB geti sætt sig við að Ísland fái í mesta lagi 4% heildaraflans sem samið verði um  og Færeyingar mest 7%. Slíkt samkomulag muni næstum tvöfalda hlut þessara tveggja landa sögulega séð. Þá er lagst gegn því að íslensk og færeysk skip fái aðgang að lögsögum Noregs og ESB til að veiða makríl.

Því má skjóta inn að ef Ísland fengi 4% af þeim heildarkvóta í makríl sem Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til á næsta ári jafngilti það 23-26 þúsund tonna afla. Makrílafli Íslendinga á þessu ári var tæplega 160 þúsund tonn.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að það sé hvorki réttlátt né beri vott um sjálfbærni að fiska eins mikið og hægt sé meðan makríllinn sé í lögsögu viðkomandi ríkis. Ef farið hefði verið eftir þeirri reglu hefðu skip ESB og Noregs hæglega getað veitt þrisvar sinnum meira af makríl en sem nam kvótanum sem stjórnvöld þessara ríkja ákváðu.

Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útgerðarmanna.