sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland í 19. sæti

22. desember 2011 kl. 11:00

Á sjó. Mynd: Einar Ásgeirsson

Heimsaflinn varð um 90 milljónir tonna árið 2009

Heimsaflinn var tæpar 90 milljónir tonna árið 2009 og dróst saman um 809 þúsund tonn frá árinu 2008. Kyrrahafið gaf mestan afla og stærsta einstaka fisktegundin var Perúansjósa. Kínverjar veiddu mest allra þjóða árið 2009 en Íslendingar voru í 19. sæti heimslistans. Þessar upplýsingar koma fram á vef Hagstofu Íslands.

Kínverjar bera höfuð og herðar yfir aðrar fiskveiðiþjóðir. Afli þeirra á árinu 2009 nam rúmum 15 milljónum tonna og er það svipað magn og þeir veiddu árið áður. Röð næstu tveggja ríkja er óbreytt. Perú kemur næst á eftir Kína með tæp 7 milljónir tonn og Indónesía með um 5 milljónir tonna.

Ísland var í 18. sæti heimslistans árið 2008 með um 1,3 milljónir tonna. Afli okkar var 1.164 þúsund tonn árið 2009 og féllum við niður um eitt sæti á heimslistanum. Marokkó skaust upp fyrir okkur og var með um 8 þúsund tonna meiri afla en við. Noregur er í 11. sæti á heimslistanum en Danmörk í því 24.