þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísland já – Noregur nei

21. nóvember 2012 kl. 14:50

Þórshöfn í Færeyjum.

Færeyingar herða ákvæði um eignaraðild útlendinga í fiskeldi en Íslendingar eru undanþegnir.

Færeysk stjórnvöld undirbúa nú lög sem takmarkað eignarhald útlendinga í færeysku fiskeldi við 20%. Íslendingar eru undanþegnir þessu ákvæði því í gildi er fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja sem kveður á um gagnkvæmar frjálsar fjárfestingar í löndunum tveimur.

Á þetta er bent í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren. Þar segir að mikillar óánægju gæti innan norska fiskeldisiðnaðarins og meðal fjárfesta vegna fyrirhugaðrar lagasetningar í Færeyjum. Tvö stór eldisfyrirtæki í Noregi eiga þar hagsmuna að gæta.  Salmar á 25% í Bakkafrosti, langstærsta fiskeldisfyrirtæki Færeyja sem framleiðir 40.000 tonn af laxi á ári. Salmar fær að halda sínum hlut en má ekki kaupa meira. 

Annað norskt fyrirtæki, Marine Harvest, á 70% í Marine Harvest Faroes og heldur líka sínum hlut en verður bannað að auka hann. Marine Harvest Faroes framleiðir 6.000-7.000 tonn af laxi á ári. 

Á níunda áratugnum voru 60 fiskeldisstöðvar í Færeyjum en þeim hefur fækkað í fjórar. Þær tvær sem ekki hafa verið nefndar eru Luna sem framleiðir 10.000 tonn af laxi á ári og Faroe Farming með 3.000-4.000 tonn af laxi.