sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar koma að rekstri á einu stærsta sandhverfueldi í Kína

12. ágúst 2010 kl. 11:32

Steindór Sigurgeirsson, aðaleigandi útgerðarfélagsins Storms Seafood ehf. sem styrr hefur staðið um undanfarna daga vegna erlendrar eignaraðildar, hefur búið í Hong Kong undanfarin ár. Eignarhaldsfélag sem hann er framkvæmdastjóri hjá, Nautilus Holdings, á og rekur meðal annars eitt stærsta sandhverfueldi í Kína. Hann segir að 43% eignarhlutur erlendra aðila í Stormi Seafood sé fullkomlega löglegur og ætti ekki að koma ráðamönnum á óvart.

Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Þar er ítarlegt viðtal við Steindór um verkefni Nautilus Holdings og deilurnar um Storm Seafood ehf. sem gerir út tvo báta á Íslandi.

Steindór stofnaði Nautilus Holdings ásamt samstarfsaðilum sínum fyrir nokkur árum. Markmiðið er að kaupa og byggja upp fyrirtæki, aðallega í sjávarútvegi. ,,Eitt af fyrstu verkefnum okkar var að kaupa lítið sandhverfueldi og við höfum byggt stöðina upp í það að vera eina af stærstu stöðvum sinnar tegundar í Kína. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi stöð er einnig ein tæknivæddasta stöð í sandhverfueldi í heiminum,” segir Steindór.

Í stöðinni er hægt að framleiða um 400 tonn af sandhverfu á ári. Auk þess reka þeir seiðaeldisstöð sem getur framleitt um 3 milljónir seiða á ári. Um 100 manns vinna þar við sandhverfueldi og eldi á kóralfisknum grouper. Íslensk þekking er nýtt við reksturinn og framkvæmdastjóri stöðvarinnar er Íslendingurinn Jóhannes Hermannsson. 

Sjá nánar viðtal við Steindór Sigurgeirsson í Fiskifréttum.