miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar standa fast á rétti sínum

2. apríl 2014 kl. 15:11

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra

Hvalveiðar okkar eru sjálfbærar og löglegar, segir sjávarútvegsráðherra.

„Það eru vonbrigði að bandarísk stjórnvöld grípi til þessara ráðstafanna gagnvart Íslandi, en þó rétt að halda til haga að þetta eru ekki hörð viðbrögð og lík þeim sem við fengum 2011. Við ítrekum að veiðarnar eru löglegar samkvæmt alþjóðasamningum. Vísindagrundvöllur þeirra er traustur og það er hafið yfir allan vafa að veiðarnar eru sjálfbærar og alþjóðaviðskipti okkar með hvalaafurðir í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra á vef ráðuneytisins í tilefni af því að innanríkisráðherra Bandaríkjanna útnefndi Ísland samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði í febrúar sl. og lagði til við Bandaríkjaforseta að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða.

Forsetinn ákvað að fara að tillögu innanríkisráðherrans en tilkynnti jafnframt að ekki yrði gripið til neinna viðskiptalegra aðgerða. Það var heldur ekki gert árið 2011 þegar forsetinn staðfesti sams konar aðgerðir af sömu ástæðum og nú.